Hafbjörg dregur fiskiskip til hafnar

Hafbjörg, skip Björgunarsveitarinnar Gerpis í Neskaupstað, er á leið til hafnar eftir að hafa verið kallað út eftir hádegi í dag eftir að bilun kom upp í báti á leið til hafnar.

Útkallið barst rétt upp úr klukkan eitt í dag þegar fiskiskipið Vésteinn lenti í vandræðum úti fyrir Dalatanga, um 17 sjómílur norðaustur af Neskaupstað.

Skipið fór frá Neskaupstað í gær og var á leið heim af veiðum út undan Héraðsflóa þegar gír þess bilaði þannig það gat ekki lengur siglt fyrir eigin vélarafli.

Hafbjörgin kom að Vésteini skömmu upp úr klukkan þrjú. Stuttu síðar var komin taug á milli skipanna og stefna þau nú inn til Neskaupstaðar.

Samkvæmt tilkynningu Landsbjargar var engin hætta á ferðum. Fjórir voru um borð í Vésteini.

Mynd: Landsbjörg


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar