Hafna óskum um meiri skólaakstur í Eiða- og Hjaltastaðaþinghá

Óskum foreldra barna í Eiða- og Hjaltastaðaþinghá þess efnis að bætt verði við skólaakstur svo börnin geti tekið þátt í íþróttum og tómstundum hefur verið hafnað.

Höfnunin var staðfest á fundi fjölskylduráðs Múlaþings í vikunni en bréf með þessum óskum foreldra á þessum slóðum barst sveitarfélaginu í byrjun ágústmánaðar. Höfnunin byggir á þeim reglum að skólaakstur skal einungis vera í tengslum við upphaf og lok hvers skóladags.

Óskirnar snérust bæði um meiri akstur svo börnin í sveitinni gætu komist til síns heima þó þau tækju þátt í íþrótta- eða tómstundastarfi eftir hefðbundinn skólatíma en jafnframt að sveitarfélagið breytti formlegum skólaakstri á þessar slóðir í hreinar og beinar almenningssamgöngur.

Það flækir málið af hálfu Múlaþings að skólaakstur heyrir undir fjölskylduráð meðan almenningssamgöngur eru á forsvari umhverfis- og framkvæmdaráðs. Fjölskylduráð hefur hins vegar ekki lokað málinu alfarið því ráðið hefur falið fræðslustjóra Múlaþings að vinna samantekt á öllum skólaakstri í sveitarfélaginu í kjölfar þessa erindis.

Langi börnum í dreifbýlinu í Eiða- og Hjaltastaðaþinghá að dvelja eftir skóla við íþróttir eða tómstundir komust þau ekki til síns heima með skólabílnum. Mynd Múlaþing

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar