Hafrafellið aflahæsti línubátur ársins

Aldrei áður hefur einn og sami línubáturinn landað jafn miklum afla á einu fiskveiðiári en Hafrafell SU-65 frá Stöðvarfirði gerði á síðustu vertíð. Það þykir sérstaklega makalaust sökum þess að báturinn er með þeim allra minnstu en hann er aðeins rúm 29 brúttótonn og innan við 14 metra langur.

Samkvæmt talningu Landssambands smábátaeigenda fyrir fiskveiðiárið 2022 til 2023 hafði enginn bátur roð í Hafrafellið en báturinn landaði hvorki meira né minna en 2.509 tonnum þá vertíðina. Aldrei áður hefur krókaaflamarksbátur landað svo miklum afla á einu fiskveiðiári þó bæði Hafrafell og Sandfell, sem gerður er út af Loðnuvinnslunni í Fáskrúðsfirði, hafi síðustu árin alltaf verið í hópi aflamestu línubátanna á landsvísu.

Hafrafell sjálft er að 49% hluta í eigu Loðnuvinnslunnar líka þó heimahöfnin sé á Stöðvarfirði. Annar skipstjóri bátsins, Ólafur Svanur Ingimundarson, segir þó að þeir geri út og landi nánast á öllu Austurlandi á hverri vertíð.

„Það má kannski að segja að Stöðvarfjörður sé svona okkar heimahöfn en við löndum yfirleitt bara í næsta bæ við miðin ef við náum fiski að ráði. En það er mikill munur á hversu langt við sækjum út hverju sinni og hvar. Það er í raun ekkert leyndarmál eða trix við að ná góðum afla í hverri ferð. Þetta snýst fyrst og fremst um að hafa frábæran mannskap um borð en við erum fjórir í áhöfn hverju sinni. Svo hjálpar heil ósköp að hafa Loðnuvinnsluna sem bakhjarl því þjónustan þar er frábær út í eitt. Þeir alltaf með allt tilbúið handa okkur hvort sem við erum að fara eða koma og það munar aldeilis um slíka fagmennsku því þá taka stoppin skemmri tíma áður en við förum aftur út.“

Tvær áhafnir skiptast á að halda til veiða að sögn Ólafs og er hvor áhöfn um sig úti í tvær vikur áður en tekið er gott frí. Allir áhafnarmeðlimir koma frá Suðurnesjunum enda vel þekkt að þaðan koma bestu línuveiðimenn landsins gantast skipstjórinn með. Aðspurður hvort ekki sé fúlt að fljúga fram og aftur reglulega í hverjum mánuði segir Ólafur það ekki vera vandamál.

„Sá tími sem ferðalögin taka plús viðvera á miðunum er samtals ekki verri en á meðaltogara og fríin jafnvel lengri og betri ef eitthvað er. Engir okkar setja það nokkuð fyrir sig. Menn vita að þeir þurfa að hafa fyrir hlutunum í tvær vikur úti í senn en þær tvær vikur sem svo koma í frí duga meira en vel til að ná góðri hvíld og eiga nógan tíma fyrir fjölskyldu og vini.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar