Hafrannsóknarstofnun flytur í Múlann í Neskaupstað

Hafrannsóknastofnun er að ganga frá ráðningu tveggja starfsmanna á nýja starfsstöð stofnunarinnar sem opnuð verður í Múlanum í Neskaupstað á næstunni.

Þetta kemur fram á vefsíðu stofnunarinnar. Þar segir að Hafró er fyrir með starfsstöðvar á níu stöðum á landinu en útibúið í Neskaupstað er það fyrsta á Austurlandi.

„Um er að ræða stöður sem auglýstar voru nýlega við Uppsjávarsvið stofnunarinnar. Stofnunin hefur tryggt sér starfsaðstöðu í Múlanum-samvinnuhúsi við Bakkaveg 5 í Neskaupstað frá 1. mars næstkomandi,“ segir á vefsíðunni.

Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, SÚN, á húsið sem hýsti áður verslunina Nesbakka. Undirbúningur og framkvæmdir við húsið hafa staðið yfir í ár og var það meðal annars stækkað um 300 fm.

Húsið var opnað um áramótin og eru fyrstu leigendurnir þegar fluttir inn. Aðrir sem einnig hafa tryggt sér aðstöðu í húsinu eru: Matís, Náttúrustofa Austurlands, Austurbrú, Deloitte, Nox health, Trackwell, Advania, Stapi lífeyrissjóður og Origo.

Mynd: Hafogvatn.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.