Halda áfram að efla Eyrina heilsurækt með tækjasal

Í síðustu viku var skrifað undir samninga milli Eyrarinnar heilsuræktar og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar um kaup Eyrarinnar á nær öllum tækjum líkamsræktarinnar á Reyðarfirði. Nýr tækjasalur opnar í húsi stöðvarinnar um áramót. Margföldun hefur orðið á iðkendum þar síðan nýir eigendur tóku við fyrir um ári.

„Þegar við tókum við voru um 40 iðkendur við stöðina og þeir hafa meira en þrefaldast síðan. Við fórum að velta fyrir okkur hvað þyrfti að gera til að efla starfið og niðurstaðan var að búa til samfélag. Við höfum verið óhrædd við að gera tilraunir og endurskoða hvað við bjóðum hér upp á.

Við hættum til dæmis að kalla okkur crossfit-stöð. Við erum erum með alhliða heilsurækt fyrir fólk af ýmsum stigum, iðkendur hjá okkur eru á bilinu 15-67 ára. Við hjálpum fólki til að styrkjast eða auka liðleika þannig það geti beygt sig niður og knúsað barnabörnin frekar eða haldið á innkaupapokunum. Það eru ákveðin lífsgæði í þessu þar sem við töpum styrk þegar við eldumst.

Við þetta breyttist andinn hægt og rólega. Fólk sá að áherslan var á heilsu en ekki keppni. Við höfum síðan fylgt þessu frekar eftir með að bæta við tímum sem eru aðgengilegar öllum. Við leggjum líka mikla áherslu á að aðlaga æfingarnar hverjum og einum.

Við höfum líka endurnýjað ýmislegt hér í stöðinni. Endurbætt gólfið og pantaði ný tæki auk annarra framkvæmda.“

Þannig útskýra þau Helgi Laxdal Helgason og Laufey Frímannsdóttir, þær breytingar sem orðið hafa á Eyrinni síðan þau, ásamt Bergsteini Ingólfssyni, Önnu Steinunni Árnadóttur, Katrínu Jóhannsdóttur og Aðalsteini Ólafssyni tóku við rekstri stöðvarinnar í byrjun október í fyrra.

Aðstaðan á að verða góð í nýjum sal


Næsta viðbót verður tækjasalurinn sem flyst á Eyrina um áramótin. „Hugmydin kom fyrst því til okkar kom þáttakandi í Janusar verkefninu (verkefni um heilsurækt eldra fólks í Fjarðabyggð) sem gat ekki nýtt sér ræktina á Reyðarfirði því stiginn upp í hana var svo erfiður.

Áður var búið að sá hjá okkur hugmyndinni að tækjasal og eftir þetta ákváðum við að skoða málið frekar. Iceland Combat Arts hafa verið með hliðarsal hér hjá okkur en er á leið í smá dvala þannig þar höfum við pláss. Sá salur er litlu minni en verið hefur uppi í íþróttahúsi en á að geta hýst öll tæki þannig að aðstaðan verði góð,“ segir Helgi.

Eyrin mun yfirtaka þær skuldbindingar sem Fjarðabyggð hefur þegar gert, svo sem gagnvart korthöfum. Þá fá iðkendur í Eyrinni aðgangskort þannig þeir geta komist í tækjasalinn hvenær sem er sólarhringsins, alla daga ársins. Í stóra sal Eyrarinnar eru 3-4 skipulagðir tímar á dag þannig utan þess tíma geta iðkendur ræktarinnar einnig nýtt hann.

Héldu árshátíð fyrir samfélagið


Þau hafa fullan hug á að þróa aðstöðuna áfram en samningurinn gerir þeim kleift að búa sér til atvinnu. „Við höfum verið hér með hálft starfsgildi. Þessi samningur gerir okkur kleift að vera með 1,5-2 starfsgildi að jafnaði. Það er eitthvað sem við höfum alltaf haft að markmiði, að skapa störf,“ segir Helgi.

Hópurinn á bakvið Eyrina hefur lagt áherslu á vera meira en líkamsrækt heldur samfélag fólks sem hittist til að hreyfa sig en líka til að hafa gaman. Þannig var fyrr á árinu slegið upp árshátíð iðkenda.

„Í vor tókum við viku undir hópaleik. Þátttaka var góð og fólk hafði gaman af. Það voru alls konar áskoranir í gangi sem liðin gátu fengið stig fyrir, svo sem synda í Andapollinum eða fá sér tattú. Það voru einhverjir sem gerðu það. Við vorum hissa á hverju fólk var tilbúið að taka þátt í. Síðan enduðum við vikuna á að hittast hér, panta mat og hafa gaman,“ segir Laufey.

Eigendur Eyrarinnar og Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.