Hálendisþjóðgarður sparar stórfé í auglýsingar

„Þjóðgarðar eru með öflugustu landkynningum í dag, auglýsa sig sjálfir þegar þeir eru orðnir þekktir og spara þannig auglýsingakostnað. Tilvist Hálendisþjóðgarðs mun eflaust spara íslenska ríkinu og ferðaþjónustunni stórfé í auglýsingakostnaði.“

Þetta kom fram í máli Unnar Birnu Karlsdóttur forstöðumanns Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Austurlandi á málþingi Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) sem haldið var í dag um náttúru Íslands og Hálendisþjóðgarð. Fundurinn fór fram á Zoom og Facebook og hægt er að nálgast hann þar á Facebook-síðu Landverndar.

Unnur Birna stiklaði gróflega á stóru í sögu þjóðgarða á Íslandi en hugmyndir að þeim ná langt aftur í tímann og eru margar og margvíslegar. Hún nefndi sem dæmi hugmyndir um þjóðgarð Samvinnumanna í Borgarfirði, sérstakan þjóðgarð Reykvíkinga og þjóðgarð í nyrstu óbyggðum Vestfjarða.

Unnur nefndi einnig undanfara að því á Alþingi að Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður, nánar tiltekið þingsályktunartillögu Hjörleifs Guttormssonar árið 1998 um stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendinu umhverfis meginjöklana. Nefndi Hjörleifur þessa garða Hofsjökulsþjóðgarð, Mýrdalsjökulsþjóðgarð, Langjökulsþjóðgarð og Vatnajökulsþjóðgarð. Ein af þessum tillögum hlaut brautargengi og niðurstaðan varð stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs árið 2008.

Unnur Birna fór m.a. yfir nokkur atriði sem þekkt eru í umræðu með og á móti þjóðgörðum. Helstu rök með eru náttúruvernd í þágu víðfeðmar og einstakrar náttúru og menningar- og samfélagsleg rök þ.e. jafnt aðgengi fólks að villtri náttúru. Helstu rök á móti hafa t.d. verið það sem kalla má hefðarrök, þ.e. þau rök að umrætt land hafi hingað til verið ófriðað og óþarfi að breyta því.

Spurningar út í stofnun þjóðgarðs út frá atriðum sem snerta ákvarðanatöku, skipulag, stjórnsýslu og fjármögnun hafa einnig vaknað í umræðu um Hálendisþjóðgarðinn. Síðast en ekki síst hafa árekstrar virkjanastefnu og náttúruverndar sett einna dýpst mark á umræðu undanfarinna ára og áratuga með eða á móti stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.