Hálf öld frá snjóflóðunum í Neskaupstað: Þungur tími en ekki uppgjöf

Á annað hundrað manns tók í gær þátt í minningarathöfnum í Neskaupstað sem haldnar voru þar sem hálf öld var liðin frá því að tvö mannskæð snjóflóð féllu á byggðina þar. Þau ollu líka miklum skaða á mannvirkjum, einkum athafnasvæði Síldarvinnslunnar. Prestur segir samstöðu hafa ríkt í þjóðfélaginu öllu um að byggja Norðfjörð upp á ný eins og kostur væri.

Minningarathafnirnar í gær hófst með minningarstund í Norðfjarðarkirkju. Prestarnir Benjamín Hrafn Böðvarsson og Jóna Kristín Þorvaldsdóttir leiddu þá stund, Guðrún María Jóhannsdóttir og Benedikt Sigurjónsson lásu ritningartexta, kór Norðfjarðarkirkju söng við undirleik Kaido Tani og Hrafna Hanna Elísa Herbertsdóttir söng einsöng með gítarleikarann Jón Hilmar Kárason sér við hlið.

Við upphaf stundarinnar voru lesin upp nöfn þeirra tólf einstaklinga sem fórust í flóðunum. Um leið var kveikt á jafnmörgum kertum. Við athöfnina klæddist séra Benjamín Hrafn hökli sem gefinn var af séra Páli Þórðarsyni og fjölskyldu ári eftir snjóflóðin en Páll var sóknarprestur Norðfirðinga þegar þau féllu. Hefð er fyrir því að prestar Norðfjarðar klæðist höklinum þegar snjóflóðanna er minnst.

Þau sem björguðust voru ljós vonar í myrkrinu


Séra Jóna Kristín hóf hugvekju sína á tilvísun í Pál sem nokkrum dögum eftir flóðin lét hafa eftir sér að Norðfirðingar horfðu „tárvotum augum“ til framtíðarinnar en myndu ekki gefast upp. Jóna Kristín rifjaði upp að strax innan byggðarinnar, sem á landsvísu, hefði strax skapast samstaða um að byggja fljótt upp aftur það sem hægt var.

Hún sagði að mitt í hamförunum hefðu líka orðið kraftaverk. Að þrettán einstaklingar hefðu bjargast úr flóðunum hefði verið „ljós vonar í myrkrinu.“ Þeir hefðu þó gengið í gegnum ótrúlegar og miklar „líkamlegar og andlegar þrekraunir.“ Í hönd hefði síðan farið „þungur tími en ekki uppgjöf.“

Sorgin þarf að finna sinn farveg


Á þeim tíma hefði viðhorfið verið að bera ætti sorgina í hljóði og bíta á jaxlinn. Þannig hefði þjóðin farið í gegnum þung áföll þangað til og ekki kunnað annað. Reynslan hefði hins vegar sýnt að sorgin hyrfi ekki með þögninni. Hún verði að fá sinn tíma og finna sinn farveg við að vinna úr allra sárustu tilfinningunum.

Áfallahjálp í dag snúist um að takast á við sorgina, hlusta á einstaklinga sem eiga um sárt að binda og sýna þeim skilning. Manneskjan hafi þörf fyrir að sjá atburði í stærra samhengi og reyna að átta sig á því sem gerst hafi. Það eigi við um bæði börn og fullorðna.

„Fyrir 50 árum var horft tárvotum augum til framtíðar, enn vökna augu, vegna þeirra, sem þá fórust, vegna ástvina og vina þeirra, en einnig þökkum við fyrir mannslífin sem björguðust og fyrir byggðina sem reis upp með djörfung og dug. Kærleikurinn hefur alltaf varað. Hann fellur aldrei úr gildi,“ sagði séra Jóna Kristín.

Þarft að ljúka ofanflóðavörnum


Báðir prestarnir ávörpuðu snjóflóðavarnarmannvirkin sem eru ofan Neskaupstaðar. Jóna sagði slíkar varnir hafa sannað gildi sitt og yfirvöld ættu alltaf að setja það í forvang að efla og tryggja varnir byggða undir bröttum fjallshlíðum. Framkvæmdir hófust í sumar við síðasta áfangann að varnarmannvirkjum ofan Neskaupstaðar.

Við höfum fjöllin stöðugt fyrir augum. Þau halda áfram að vera á sínum stað og við lifum lífinu okkar með þeim. Við göngum um fjallshlíðarnar, njótum útivista í faðmi þeirra, sumar sem vetur. Veðráttan getur orsakað hættuástand og við tökumst áfram á við náttúruvána. Við gerum það saman, með sömu samstöðu og þrautseigju, sem einkennt hefur staðinn,“ sagði hún.

Eftir stundina í kirkjunni var minningarathöfn við minnisvarða um snjóflóðin við varnargarðana innst í bænum. Þar flutti Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, ávarp og björgunarsveitarfólk kveikti á tólf blysum. Þá gekk hópur fólks eftir snjóflóðagörðunum í kaffisamsæti í Safnahúsinu. Norðfirðingafélagið í Reykjavík stóð einnig fyrir samkomustund í Fella- og Hólakirkju í gærkvöldi.

Nesk Snjoflodaminning 20241220 0004 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0045 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0005 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0042 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0049 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0040 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0009 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0014 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0016 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0021 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0028 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0032 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0050 Web
Nesk Snjoflodaminning 20241220 0035 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.