Hallar á Norðausturkjördæmi í útgjöldum til menningarmála

jon_heidar_thoroddur_bjarna_naskyrsla.jpg
Verulega hallar á íbúa í Norðausturkjördæmi í útgjöldum ríkisins til menningarmála. Meðgjöfin er mest í flokki trúmála og meira skilar sér til kjördæmisins til samgöngumála heldur en íbúarnir greiða. Heilt yfir er jafnvægi í útgjöldum og tekjum til ríkisins í kjördæminu.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Þórodds Bjarnasonar og Jóns Þorvaldar Heiðarssonar frá Háskólanum á Akureyri en þeir kynntu niðurstöðurnar á fundi á Egilsstöðum fyrir skemmstu. Þeir fóru yfir fjárlög ársins 2011 og röktu hvar peningunum hefði verið eytt og hvar þeirra hefði verið aflað. Ekki voru skoðuð viðbótarfjárlög eða umframeyðsla.

Rannsóknin útheimti mikla og flókna vinnu. „Það var mjög erfitt að fá þessar upplýsingar,“ segir Þóroddur og Jón Oddur bætti við. „Þetta er mesta greiningarvinna sem ég hef tekið að mér.“

Greindir voru fjórtán stærstu tekjuliðir fjárlaga en þeir standa undir 85% tekna ríkisins og metið hversu stór hluti tekna í hverjum lið kom úr kjördæminu. Útgjöld á fjárlögum voru flokkuð í fernt: starfsemi og þjónusta, fjárfestingar í innviðum, bætur til einstaklinga og styrkir til svæða og atvinnugreina.

Útgjöld ríkisins í kjördæminu eru alls 52 milljarðar króna. Trúmál er sá flokkur sem kjördæmið græðir mest á miðað við mannfjölda og í samgöngum.

Mest hallar á kjördæmið í flokki menningarmála, félagsstarfa og fjölmiðlunar. „Það er sá flokkur sem auðveldast ætti að vera að dreifa útgjöldum jafnt eftir mannfjölda. Þessar niðurstöður eru sérstaklega sláandi því menningarstyrkirnir ættu að jafna bilið milli svæða en gera það greinilega ekki,“ sagði Þóroddur.

Heilbrigðismál eru stærsti útgjaldaliðurinn hér sem annars staðar. Á Norðurlandi eystra hallar aðeins á íbúa en á Austurlandi er eytt 2,5 milljörðum til heilbrigðismála en að mati þeirra ættu það að vera 3,3 milljarðar.

Þegar skoðaðir eru styrkir til landssvæða og atvinnugreina snýst dæmið aftur á móti við. Bæði Norðurland eystra og Austurland fá til sín miklu meiri styrki en þau ættu að vera fá miðað við hlutfallslegan íbúafjölda.

Tekjur ríkisins af Norðurlandi eystra eru áætlaðar 36 milljarðar króna en ættu að vera 43 milljarðar. Tekjurnar af Austurlandi stemma nokkurn vegin við landsmeðalta, um 15 milljarðar.

Samkvæmt rannsókninni eru útgjöld í Norðausturkjördæmi 51,6 milljarður en tekjur um 52,5 milljarður. Hagnaður ríkisins af svæðinu eru því um 900 milljarðar. „Landsbyggðin er ekki baggi á höfuðborgarsvæðinu og höfuðborgarsvæðið heldur ekki byrgði á landsbyggðinni.“

Aðspurðir að því hvort þeir teldu að kjördæmið gæti þrifist sem sjálfstætt ríki. „Svæðið er mjög ríkt af auðlindum miðað við mannfjölda.“ 

Í máli þeirra kom fram að 74% opinberra starfa séu í Reykjavík en aðeins 2% á Austurlandi. Það skekkir þó myndina að störfin eru talin eftir hvar aðalstöðvarnar séu, til dæmis séu allir prestar skráðir í Reykjavík. Í Norðausturkjördæmi býr 12,3% þjóðarinnar og var það hlutfall notað sem útgangspunktur í rannsókninni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar