Hálslón aðeins á yfirfalli í nokkra daga
Hálslón fór óvenju seint á yfirfall í sumar og það ástand varði aðeins í nokkra daga. Síðan hefur vatnsyfirborðið farið lækkandi sem eru slæm tíðindi fyrir raforkuframleiðslu í vetur. Engar skerðingar hafa þó enn verið boðaðar til notenda á Austurlandi.Hálslón var á yfirfalli frá 20. – 26. september, rétt tæplega síðasta daginn. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun mun lónið einu sinni áður hafa fyllst svo seint árið 2015 eftir kalt sumar þar sem jökulbráð kom ekki fram að ráði fyrr en í september.
Samanborið við mörg önnur miðlunarlón Landsvirkjunar byggir innrennsli í Hálslón meira á jökulbráð heldur en leysingum. Þess vegna skipti það minna máli fyrir lónið þótt síðasti vetur væri þurr á Austurlandi.
Það sem hins vegar skipti máli var að vorið var nokkuð kalt og bráðnun jökulsins hófst ekki fyrr en komið var vel fram í júní. Vatnsstaðan allan síðasta vetur var í lægra lagi, hélt sjó í gegnum maí og júní en tók ekki við sér fyrr en um mánaðamótin júní/júlí.
Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri vatnsafls hjá Landsvirkjun, segir að eftir það hafi sumarið verið nokkuð eðlilegt þar til nýtt kuldakost kom eftir miðjan ágúst sem aftur hægði á innrennslinu.
Sögulega lítið í miðlunarlónum á Suðurlandi
Frá janúar og fram í maí í ár var skerðanleg raforka ekki í boði frá Landsvirkjun. Ástæðan var fyrst og fremst lág staða í miðlunarlónum annars staðar á landinu, þótt meira innrennsli í Hálslón hefði hjálpað til. Staðan er áfram lág í miðlunarlónum á Suðurlandi og á því orkusvæði hefur stórnotendum verið tilkynnt um skerðingar í haust. Þær eru ekki í kortunum enn á Austurlandi.
Gunnar Guðni segir Hálslón mikilvægasta miðlunarlón Landsvirkjunar ásamt Þórisvatni. Vatnsstaða þess lóns er sögulega lág vegna þess að sumarið á Suðurlandi hefur verið þurrt. „Það hefur þótt úrkomusamt í höfuðborginni í sumar. Sú úrkoma náði ekki upp á hálendið,“ útskýrir hann.
Til að gefa Þórisvatni og öðrum miðlunarlónum á Suðurlandi tækifæri til að fyllast er reynt að draga úr álagi á þau með að nota eins og kostur er orku úr Hálslóni. Vegna hindrana í flutningskerfi raforku milli Austur- og Suðurlands er ekki hægt að fullnýta þann möguleika.
Nýtt vatnsár hófst fyrir viku, þann 1. október síðastliðinn. Við þau tímamót er miðað þegar staða í lónum er borin saman. Tímasetningin er valin þar sem á þessum árstíma hættir yfirleitt að renna inn í lónin heldur er byrjað að nýta úr þeim þannig vatnsyfirborðið lækkar stöðugt fram til vors. Gunnar Guðni segir að síðasta vatnsár hafi verið þurrt, það er með litlu innrennsli í lón um allt land og því hafi vatnsyfirborðið lækkað stöðugt yfir veturinn.
Hvernig er staðan fyrir veturinn?
Enn er of snemmt að segja til um mögulegar skerðingar í vetur. Þótt stórnotendur á Suðurlandi hafi verið varaðir við þá getur hlýtt og blautt haust lagað stöðuna. Hún er hins vegar ekki góð, vatnshæð Þórisvatns er fimm metrum undir meðaltali.
Engar skerðingar hafa enn verið boðaðar á Norður- og Austurlandi. Veðurfarið fram að jólum ræður því hvort aftur þurfi að grípa til þeirra eftir áramótin. Vatnsyfirborð Hálslóns er nærri meðallagi en það hefur hins vegar lækkað dag frá degi síðan 26. september.
„Það sem skiptir máli er hvenær byrjar að lækka í lónunum. Í fyrra var það nánast frá áramótum vatnsársins fram í apríl. Ef haustið er hagfellt þá haldast lónin hærra. Þess vegna skipta næstu 1-2 mánuðir máli. Snjór sem fellur í desember skilar sér ekki fyrr en næsta vor inn í lónin,“ segir Gunnar Guðni að lokum.