Hamar skoðar kaup á Launafli og G. Skúlasyni

Vélsmiðjan Hamar hefur hafið formlegar viðræður við G. Skúlason vélaverkstæði ehf. og Launafl ehf. um kaup á öllu hlutafé í austfirsku fyrirtækjunum tveimur.

Starfsmönnum fyrirtækjanna var tilkynnt um viðræðurnar á mánudagsmorgunn.

Í tilkynningu sem lesin var upp fyrir starfsmenn segir að með viðræðunum sé verið að kanna hvort kaup geti eflt rekstur fyrirtækjanna og búið til einingu á Austurlandi sem eflt geti þann góða rekstur sem þar fari fram.

Framundan er áreiðanleikakönnun sem stefnt er að því að ljúki öðru hvorum megin við áramótin. Staðfesti hún væntingar samningsaðila verður gengið til endanlegra samninga um kaupin. Þá þarf samþykki Samkeppniseftirlitsins fyrir viðskiptunum.

Launafl er með höfuðstöðvar sínar á Reyðarfirði en hjá fyrirtækinu starfa í dag um 100 starfsmenn. G. Skúlason starfar í Neskaupstað með ríflega 20 starfsmenn.

G. Skúlason er einnig næststærsti eigandi Launafls með 35,9% hlut en stærsta hlutinn á Rafey ehf., 36,5%. Aðrir eigendur eru Myllan ehf. með 16,5%, Magnús Helgason með tæp 6,6% og Rafmáni ehf. með 5,6%.

Stofnandinn Guðmundur J. Skúlason er stærsti eigandinn að G. Skúlasyni með 50,1% en Ferro Zink hf. og Síldarvinnslan eiga tæp 25% hvort.

Hamar ehf. hefur rekið starfsstöð á Eskifirði síðan það keypti Vélaverkstæði Hraðfrystihúss Eskifjarðar árið 2002. Aðaleigandi Hamars er Framtakssjóðirinn SÍA III, sem rekinn er af Stefni, með 70% eign. Kári Pálsson, framkvæmdastjóri Hamars, vildi ekki tjá sig um málið þegar Austurfrétt leitaði eftir því.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var farið rangt með aðalhluthafa Hamars. Beðist er velvirðingar á því.

Mynd: Hamar ehf.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar