Hannes Bjarna: Ferðin færir mér innihald í baráttumálin

hannes_bjarnason.jpg
Forsetaframbjóðandinn Hannes Bjarnason er ánægður með ferð sína um Austfirði þótt heldur fámennt hafi verið á þeim fundum sem hann hafi auglýst. Honum finnst vænt um að hitta fólk og hlusta á það.

„Það er fyrst núna sem ég er að fá innihald í baráttumálin mín,“ segir Hannes. „Við frambjóðendurnir höfum farið af stað með fín og falleg mál en við erum fyrst og fremst með frasa, þótt þetta séu frasar sem brenna á okkur. Þegar maður fer um landið og hlustar á sögur og sjónarmið fær maður innihald í frasana,“ segir Hannes.

„Hvað þýðir til dæmis að sameina þjóðina? Á maður að sameina stríðandi öfl á Alþingi þannig þingmenn tali betur hver til annars þótt þeir þurfi að rífast um málefni, á ég að sameina þéttbýli og dreifbýli eða áttu að sameina önnur stríðandi öfl sem þú finnur eiginlega út um allt? spyr Hannes.

Tvö eyru til að hlusta

Agl.is greindi frá því í gær að Hannes hefði komið að lokuðum dyrum í Kirkju- og menningarmiðstöðinni þar sem hann hafði auglýst fund. Hann segist hafa mætt en bílavandræði, misskilningur og hversu illa hann þekkir til á staðnum hafi skemmt fyrir honum. Hann segist annars ánægður með ferðina um firðina.

„Það eru ákveðin forréttindi að fá að ferðast um landið, hitta fólk og sjá þessa staði. Eskifjörður er algjör draumur. Ég fann það, gríðarlega fallegur og ég fann það þegar ég horfði ofan af Oddsskarðinu. Þegar ég sá fram á að það yrði enginn fundur fór ég bara í sund og hafði það gott.“

Hannes segir það sér gríðarlegs virði að fara út á land og hlusta á hugsanlega kjósendur. „Ég hefði getað verið í Reykjavík og talað til fólksins en ég vil er með einn munn og tvö eyru og ég vil hlusta á fólkið og víkka sjóndeildarhringinn. Þessi barátta verður mikil lífsreynsla, hvort sem ég verð forseti eða ekki.“

Forsetinn verður að helga sig embættinu

Hannes er uppalinn Skagfirðingur en hefur búið í Noregi síðastliðin þrettán þar sem hann fæst við breytinga- og verkefnastjórnun. Hann flutti með norskri konu og eignaðist með henni börn. Þegar upp úr sambandinu slitnaði valdi hann að búa þar áfram á meðan börnin þroskuðust. Núverandi eiginkona hans, Lotta, er væntanleg til Íslands til að taka þátt í baráttunni og hugur þeirra leitar til Íslands.

„Ég ætlaði ekki að vera meira en tvö ár þegar ég fór fyrst út en svona þróaðist þetta. Ef þetta forsetadæmi gengur ekki upp eru örugglega 2-3 ár í að ég komi heim.“

Hannes hefur lengi gengið um með þá hugmynd í maganum að bjóða sig fram til forseta Íslands. Hann segir yfirlýsingu Ólafs Ragnars Grímssonar um að hann myndi hugsanlega aðeins sitja hluta af kjörtímabilinu hafa ýtt honum út í slaginn.

„Þú vaknar ekki einn daginn, sérð að snjórinn er farinn og sólin komin og rífur upp fjölskyldu sem ekki hefur verið í sviðsljósinu og ákveður að fara til Íslands og sækjast eftir slíku embætti. Þetta er búið að brjótast um í mér lengi.

Ég hélt að Ólafur Ragnar tæki heilt kjörtímabil í viðbót en svo bað hann fólk um að sýna sér skilning ef hann yrði bara í 2-3 ár. Mér finnst sá sem gegnir embætti forseta þurfa að vera fullkomlega helgaður embættinu og sá sem segist bara ætla að vera í 2-3 ár er það ekki. Þetta er eins og að fara með skipstjóra út á sjó sem segist aðeins ætla að vera í tvær vikur af fjórum.“

Hugsar um fylgið í júní

Hannes hefur ekki mælst með mikið fylgi í skoðanakönnunum en hann ætlar samt ótrauður að berjast áfram. „Ef ég verð með 8-10% fylgi um miðjan júní verð ég í bullandi séns.“

Kosningabaráttuna fjármagnar hann alfarið úr eigin vasa. „Það eru engin hulin öfl, enginn sem knýr mig áfram, engin hagsmunatengsl. Slíkar skuldbindingar geta myndast þegar þú þiggur fé af einhverjum. Lífsbaráttan í Noregi er samt sú sama og hér. Það vaxa ekki aurar á trjánum þar.“

Hannes verður með fund á Breiðdalsvík klukkan 17:00 í dag og á Djúpavogi klukkan hálf níu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.