Hannes dæmdur til að greiða HSA 1,3 milljónir króna fyrir ofreiknuð læknisverk

hsalogo.gif
Hannes Sigmarsson, fyrrverandi yfirlæknir heilsugæslunnar í Fjarðabyggð, var í gær dæmdur í Héraðsdómi Austurlands til að greiða Heilbrigðisstofnun Austurlands 1,3 milljónir í ofreiknuð laun. Dómurinn taldi greinargerð HSA. þar sem því var haldið fram að Hannes ofreiknað sér enn hærri laun, ekki dómtæka og féllst aðeins á bætur fyrir þann hluta sem Hannes hafði þegar játað á sig.

Það var sumarið 2008 sem grunur vaknaði um að ekki væri allt með felldu við reikningsgerð Hannesar. Ríkisendurskoðun gerði þá úttekt á HSA sem komin var í vond mál vegna fjárhagsörðugleika.

Frekari innanhússrannsókn varð til þess að hann var sendur í leyfi frá störfum í byrjun árs 2009 og mál hans kært til lögreglu. Um haustið var málið endanlega fellt niður þar sem ekki þótti líklegt að ákæra leiddi til sakfellingar.

Þrátt fyrir það var Hannesi sagt upp störfum í árslok 2009, vegna samstarfsörðugleika, óhlýðni við yfirmenn, fyrir ófullnægjandi læknisfræðileg vinnubrögð og að hafa ofreiknað sér laun. Hannes taldi uppsögnina ólögmæta og stefndi HSA fyrir dóm.

HSA brást við með að stefna Hannesi á móti fyrir að hafa ítrekað ofreiknað sér laun. Stofnunin fór fram á þrjár milljónir í bætur.

Færðist í aukana

Stjórnendur HSA gerðu fyrst athugasemdir við reikningshald Hannesar í október 2007 og kölluðu hann á fund. Honum var ekki veitt áminning í það skiptið því hann hét því að bæta vinnubrögð sín, meðal annars vegna ráðlegginga þar um frá framkvæmdastjóra Læknafélags Íslands, að því kemur í gögnum sem HSA lagði fyrir dóminn.

Ekki bar það árangur heldur sögðu forsvarsmenn að Hannes hefði „þvert á móti færst í aukana við að skrá gjaldskrárverk“ eins og sjá megi á tölum ársins 2008. Hannes var sendur í leyfi eftir innanhússrannsókn á færslum hans frá 16. desember 2008 – 15. janúar 2009. Ríkisendurskoðun skoðaði síðar færslur læknisins yfir lengra tímabil.

Ofreiknuð laun um þrjár milljónir

Málflutningur HSA byggðist á innanhússrannsókn sem unnin var af trúnaðarlækni og forstjóra lækninga sem báðir eru starfsmenn stofnunarinnar. Rannsókn þeirra leiddi meðal annars í ljós að læknisverk voru ranglega skráð, tími við þau ofreiknaður, tvíinnheimt fyrir sama verkið, verkum sinnt í yfirvinnu frekar en í dagvinnu næsta dags í trássi við fyrirmæli yfirmanna og símaviðtöl innheimt sem gjaldskrárverk, sem er óheimilt.

Sérfræðingur á vegum Ríkisendurskoðunar fór síðan yfir hluta innanhússrannsóknina sem hann taldi trúverðuga. Ef eitthvað væri þá hefði Hannes enn frekar ofreiknað sér þóknanir heldur en hitt. Við bætist að sumarið 2009 vann Ríkisendurskoðun greinargerð um störf Hannesar þar sem flestar þessara fullyrðinga voru ítrekaðar. Niðurstaða rannsóknanna var að flesta mánuði frá 16. desember 2007 fram til 15. janúar hefðu laun Hannesar verið ofreiknuð alls um þrjár milljónir króna.

Fékk ekki að gera athugasemdir við skýrslu HSA

Við yfirheyrslur hjá lögreglu sumarið 2009 viðurkenndi Hannes að hafa ofreiknað sér laun og bar við mistökum við innskráningu í töflureikni. Hann kvaðst hafa búist við að mistök hans yrðu leiðrétt þegar yfirmenn hans færu yfir tímaskráninguna og það dregið frá launum hans. 

Hann hafi ekki fengið að gera athugasemdir við greinargerðir HSA eða Ríkisendurskoðunar. Hjá HSA hafi verið gengið út frá því að hann hafi verið að falsa tímaskráningu til að auðgast.

Forsvarsmenn HSA bentu á að mistökin hefðu alltaf verið á einn veg, greiðslurnar hefðu orðið of háar. Eðlilegt hefði verið að stundum hefðu þau leitt til of lágra greiðslna. Þeir héldu því einnig fram að mistök í innskráningunni útskýrðu ekki nema hluta hinna ofreiknuðu launa. 

Trúnaðarlæknirinn sagði að ekki hefði komið til greina að leita athugasemda Hannes því trúnaður gagnvart honum hafi löngu verið brostinn.

Mestur kostnaður á Eskifirði

Hannes sagði að engar viðmiðunarreglur hefðu verið til um skráningu einstakra gjaldskrárliða innan stofnunarinnar og kvartaði einnig undan því að færslur annarra lækna hefðu ekki verið skoðaðar. Hann mótmælti mati læknanna og sagði þá skorta forsendur til að meta verkin. 

Stjórnendur HSA lögðu fram línurit sem sýndi að lækniskostnaður við heilsugæsluna í Fjarðabyggð var mun hærri en annars staðar innan stofnunarinnar. Á borgarafundi á Eskifirði haustið 2009 sýndi heilbrigðisráðuneytið súlurit þar sem borin var saman gjaldskrárverk og vottorð hjá 17 heilsugæslustöðvum, víðs vegar um landið, árið 2008. 

Þar hafi komið fram að heilsugæslustöðin á Eskifirði hafði „algera sérstöðu yfir landið allt með langmestan kostnað á íbúa vegna gjaldskrárverka og einnig vegna vottorða á íbúa.“ Þá er því hafnað að engar viðmiðunarreglur um skráningu hafi verið til staðar.

Einhliða rannsókn dugir ekki sem sönnunargagn

Fjölskipaður héraðsdómur gerði ýmsar athugasemdir við málatilbúnað HSA og sagði hann byggja á „einhliða rannsókn.“ Vinnubrögðin væru ekki í samræmi við kröfur sönnunarfærslu og úttektin hefði því ekkert sönnunargildi. Athugasemdir HSA við vinnubrögð HSA séu sumar hlutlægs eðlis og „skjallæg gögn“ skorti.

Dómurinn taldi að HSA hefði átt að óska eftir dómskvaðningu matsmanna til að fara yfir greinargerðina. Forsvarsmenn sögðu að það hefði verið erfitt því aðgangur að sjúkraskrám sé óheimill nema í einstökum undantekningartilfellum. Á aðganginn létu þeir aldrei reyna sem dómurinn telur athugavert. Þá vanti sundurliðun á fjárkröfu fyrir hvert atvik fyrir sig.

Dæmdur fyrir það sem hann hafði játað

„Með því að haga sönnunarfærslu sinni með þeim hætti sem að framan hefur verið lýst, í stað þess að láta reyna á framangreint úrræði réttarfarslaga, hefur gagnstefnandi tekið þá áhættu að kröfur hans verði ekki taldar sannaðar.“

Dómurinn telur því að HSA hafi ekki staðið „þeim kröfum sem gera verður til sönnunar.“ Hannes var því sýknaður af aðalkröfu HSA um endurgreiðslu á 2,9 milljónum króna. Hann var hins vegar dæmdur til að endurgreiða stofnuninni tæpar 1,3 milljónir króna fyrir að hafa oftekið sé fé með útgáfu of hárra reikninga vegna mistaka við innslátt í töflureiknisskjal. Dráttarvextir reiknast á upphæðina frá 21. janúar 2010 í samræmi við þrautakröfu HSA.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar