Hannes fordæmir umfjöllun Austurgluggans

hannes_sigmarsson_jpg_280x800_q95.jpgHannes Sigmarsson, fyrrverandi yfirlæknis Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Fjarðabyggð, segir umfjöllun héraðsfréttablaðsins Austurgluggans um embættisfærslur hans „ranga og villandi.“ Ríkisendurskoðun er gagnrýnd fyrir vinnubrögð við gerð skýrslu um vinnu Hannesar.

 

Ríkisendurskoðun vann árið 2009 skýrslu um embættisverk Hannesar þar sem hann var sagður hafa ofrukkað fyrir vinnu sína tæplega þrjátíu sinnum. Í kjölfarið var honum vikið frá störfum. Skýrslan hefur aldrei verið gerð opinber, þrátt fyrir óskir fjölmiðla þar um, en Austurglugginn hefur hana undir höndum og birti á föstudag í fyrsta sinn útdrátt úr henni. Í umfjöllun blaðsins er meðal annars sagt að Hannes hafi rukkað fyrir endurlífgun sem aldrei fór fram.

Í yfirlýsingu sem lögmenn Hannesar, héraðsdómslögmaðurinn Guðjón Ármannsson og hæstaréttarlögmaðurinn Karl Axelsson og LEX, sendu fjölmiðlum um helgina segir að Hannes geri „verulegar athugasemdir við ranga og villandi umfjöllun Austurgluggans“ sem vegi „með harkalegum og meiðandi hætti að starfsheiðri hans sem læknis.“

Gagnrýnt er að ekki sé blaðið hafi ekki tekið fram að Hannes hafi aldrei fengið tækifæri á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri meðan Ríkisendurskoðun vann að skýrslunni. Hann var kærður til lögreglu sem felldi málið að lokum niður þar sem ekki þótti líkur á að ákæra leiddi til sakfellingar.

Í yfirlýsingunni segir að Hannes geti ekki tjáð sig um einstök embættisverk en staðhæfingar blaðsins, um hina meintu endurlífgun séu „fjarstæðukenndar. Það eru gríðarlega ámælisverð vinnubrögð að blaðið skuli slá slíku fram án þess að gefa Hannesi tækifæri til að tjá sig um málið. Blaðið kórónar svo undarleg efnistök sín með því að tiltaka sérstaklega að Einar Rafn Haraldsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, hafi ekki viljað tjá sig vegna málsins.“

Í lokin segir að það veki furðu að blaðið fjalli um málið þegar eftirmálar þess séu fyrir dómi og stutt í dóm. „Í ljósi alls framangreinds er hin ranga og meiðandi umfjöllun Austurgluggans fordæmd.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.