Hannes læknir vill rúmar 30 milljónir í bætur
Hannes Sigmarsson, fyrrverandi yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Fjarðabyggð vill rúmar 30 milljónir króna í bætur fyrir ólögmæta uppsögn og aðdróttanir gegn persónu hans og æru.
Frá þessu er greint í DV í dag en Hannes hefur höfðað mál gegn Heilbrigðisstofnun Austurlands og framkvæmdastjóranum, Einari Rafni Haraldssyni, fyrir héraðsdómi Austurlands.
Hannes vill 26,7 milljónir fyrir ólögmæta uppsögn og 5 milljónir yfir „ólögmæta meingerð gegn persónu hans og æru.“ Vísar hann meðal annars til ummæla framkvæmdastjórans í fréttum um að læknirinn hafi dregið sér fé frá stofnuninni.
HSA gagnstefnt Hannesi fyrir „ofteknar þóknanir“ á tímabilinu frá desember 2007 fram í janúar 2009. Farið er fram á að hann endurgreiði stofnuninni 3,1 milljón króna
Hannes var leystur frá störfum í byrjun árs 2009 og var gefið að sök að hafa tekið sér fé frá stofnunni. Lögreglan á Eskifirði rannsakaði málið og taldi ekki að ákæra myndi leiða til sakfellingar. Hannesi hefur ekki fengið vinnu hjá HSA síðan þótt hann hafi sóst eftir því.