Hannes áminntur fyrir ítrekuð brot á siðareglum lækna

hannes_sigmarsson_jpg_280x800_q95.jpg
Siðanefnd Læknafélags Íslands hefur áminnt Hannes Sigmarsson, fyrrverandi yfirlækni Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Fjarðabyggð, fyrir ítrekuð brot á siðareglum lækna árin 2010 og 2011. Brotin snúa að samskiptum hans við aðra lækna þar sem hann beitti sér gegn því að aðrir læknar réðu sig til starfa í sveitarfélaginu.

Eyjólfur Þorkelsson læknir, sem kærði Hannes haustið 2011 sagði að yfirlæknirinn fyrrverandi hefði í samtölum sínum við hann reynt að fá hann, sem stjórnarmann í Félagi almennra lækna, til að beita sér gegn því að ungir læknar réðu sig til afleysinga í Fjarðabyggð.

Í greinargerð sinni bar Hannes því við að eftir að hann hefði hætt hefðu einstaklingar úr Fjarðabyggð „ítrekað leitað til hans vegna heilsufarslegra vandamála.“ Honum hefði verið „ljúft og skylt“ að reyna að koma málum þeirra í réttan farveg.

Þar sem mikið hefði verið rætt um mál hans opinberlega hefði það „að sjálfsögðu“ komið til umræðu í samtölum við aðra lækna hjá HSA. Hann neitaði því hins vegar að hafa reynt að koma í veg fyrir að unglæknar réðu sig til starfa.

Sagði aðra lækna á svæðinu drykkfellda

Siðanefnd Læknafélagsins, sem að þessu sinni var skipuð einum héraðsdómara og tveimur læknum, kallaði á sinn fund þrjá aðra lækna sem starfað höfðu í Fjarðabyggð auk Hannesar og Eyjólfs. Læknarnir þrír staðfestu að Hannes hefði hringt í þau til að ræða málefni sjúklinga. Hann hefði síðan vikið talinu að deilum sínum við yfirstjórn HSA og baktalað aðra lækna af svæðinu.

„Í samtölum þessum hefði hann einnig talað um aðra lækna sem störfuðu á svæðinu og sagt þá drykkfellda og haft orð á ýmsum vandamálum sem sumir þeirra ættu við að stríða,“ segir í úrskurði siðanefndarinnar sem Austurfrétt hefur undir höndum.

Taldi sig hafa rétt á stöðunni framyfir aðra

„Hannes sagði á fundi nefndarinnar eftir að hafa hlustað á læknana að hann liti svo á að hann ætti að fá stöðu sina aftur og að hann teldi að þau ættu ekki að sækja um stöðu við stofnunina eins og málum væri komið.“

Nefndin segir hann hafa í raun hafa staðfest framburð læknanna um að hann hefði rætt deildur sínar við yfirstjórn HSA við læknana, meint vandamál annarra lækna og þá trú sína að hinir læknarnir ættu ekki að sækja um stöður vegna „þess réttar sem hann hefði framyfir aðra til að halda stöðu sinni þar.“

Alsendis óviðunandi háttsemi

Sú háttsemi Hannesar, að ræða við læknana ungu um deilur sínar við yfirstjórn HSA og málefni starfsfélaganna um leið og hann ræddi mál sjúklinga er að mati nefndarinnar „alsendis óviðunandi og málefnum sjúklinga óviðkomandi.“ Hún telur slíka „háttsemi reynds læknis í garð yngri kollega til þess fallna að vekja með þeim öryggisleysi“

Hannes er ávíttur fyrir ítrekuð á brot á 22. grein siðareglna lækna þar sem læknar eru áminntir um að hafa með sér góða samvinnu, sýna hver öðrum fulla virðingu, aðstoða og leiðbeina læknum í vanda og sýna þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum sjúklinga.

Samkvæmt greininni er læknum skylt að sýna öðrum læknum „drengskap og háttvísi jafnt í viðtali sem umtali, ráðum sem gerðum, í ræðu og riti“ og „forðast að kasta rýrð á þekkingu eða störf annarra lækna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.