Harmar vinnubrögð við gerð stíflu við Arnarvatn

Skipulags- og umhverfisnefnd Vopnafjarðar harmar vinnubrögð við gerð stíflu við Arnarvatn. Farið var í gerð stíflunnar án leyfis að því er segir í bókun í fundargerð. Sara Elísabet Svansdóttir sveitarstjóri Vopnafjarðar segir að málið sé í farvegi.

Skipu­lags- og umhverf­is­nefnd hefur falið skipu­lags- og bygg­ing­ar­full­trúa að fá úttekt af áhrifum stífl­unnar frá Umhverf­is­stofnun og/eða Nátt­úru­fræði­stofnun Aust­ur­lands. Jafnframt var sveit­ar­stjóra falið að fá fund með full­trúa veiði­fé­lagsins Vesturárdal og klára samning við veiði­fé­lagið þar sem skýrt er hver hámarkshæð á vatni skuli vera, undan­hleyping í vorleys­ingum og sá tími sem vatnið á að vera fullopið.

„Þetta snerist um endurbætur á stíflunni en hún var ónýt og þeir voru að laga hana,“ segir Sara Elísabet. „Þetta mál er allt í farvegi hjá okkur núna.“

Fram kemur í máli Söru Elísabetar að stíflan var lækkuð um fimm cm frá því sem var. Stíflan sé notuð til að stýra vatnsmagninu í Vesturdalsá og hefur verið svo síðan 1972.

„Við munum núna skerpa á samningnum við veiðifélagið eins og bókunin segir til um,“ segir Sara Elísabet.

Mynd: Við Vesturdalsá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar