„Hárrétt að biðja um aðstoð björgunarsveitar“

Björgunarsveitin Jökull aðstoðaði konu, sem hafði slasast á fæti, á göngu á Rauðshaug á Fljótsdalshéraði á þriðjudagskvöld. Með konunni í för voru tvö börn. Formaður björgunarsveitarinnar segir konuna hafa tekið rétta ákvörðun með að óska eftir hjálp.

„Hún var hikandi við að óska eftir aðstoð en það er oft betra að fá beiðnina fyrr en lenda í myrkri. Í svona aðstæðum með börn á fólk ekki að hika við að biðja um aðstoð. Til þess erum við,“ segir Sigmar Daði Viðarsson, formaður Jökuls.

Konan var á leið á Rauðshaug, sem er milli Valla og Fagradals en snéri sig á fæti. Hún tók stefnuna niður í átt að Fagradal, því hún sá þangað, en ferðin sóttist seint vegna meiðslanna. „Hún hafði týnt áttum í myrkrinu og átti erfitt með að ganga í kjarrinu. Hún reyndi að koma sér sjálf til byggða en var of langt innfrá,“ segir Sigmar Daði.

Með henni í för voru tvö börn, fjögurra og tólf ára, en sveitin vissi ekki af því þegar hún fór af stað. Konan óskaði eftir aðstoð um klukkan hálf níu og segir Sigmar Daði að útkallið hafi gengið vel. Björgunarsveitarmenn á „buggy“-bíl hafi fundið hana svo til strax og í kjölfarið hafi hún verið sótt á jeppa sveitarinnar.

„Þetta gekk mjög vel því hún fannst strax. Þetta var samt ekki þægilegt, það var orðið myrkur og hún ekki með annað ljós heldur en á símanum. Það var betra að fá útkallið á þessum tímapunkti. Síminn hennar var að verða rafmagnslaus og þetta hefði getað orðið öll nóttin.“

Sigmar Daði segir að börnin hafi verið orðið nokkuð köld og blaut, enda hiti um frostmark, en að öðru leyti hafi fólkið verið í ágætu ástandi.

Mynd úr safni. Adam Eiður Óttarsson.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.