Hátt í 80% kjörsókn á Djúpavogi
Kjörfundi er lokið í tveimur sveitarfélögum af fjórum þar sem í dag er kosið um sameiningu. Kjörsókn virðist ætla að verða hlutfallslega best á Djúpavogi en slökust á Fljótsdalshéraði.Kjörfundi lauk á Djúpavogi upp úr klukkan sex í kvöld. Þar voru greidd 246 atkvæði, með utankjörfundaratkvæðum en 314 voru á kjörskrá sem gerir 78% kjörsókn.
Á Borgarfirði lauk kjörfundi klukkan 17:00. Þar greiddu 52 atkvæði á kjörstað en 16 utankjörfundar. Atkvæðin voru því 68 en 95 voru á kjörskrá sem gerir 71,6% kjörsókn.
Á Seyðisfirði höfðu 259 kosið á kjörstað og 324 atkvæði borist alls klukkan kortér yfir sex. Þar eru 509 á kjörskrá sem gerir 64% kjörsókn í heildina.
Á Fljótsdalshéraði voru komin 1111 atkvæði í hús klukkan 18:00, 959 á kjörstað og 152 utan kjörfundar. Þar eru 2595 manns á kjörskrá og kjörsókn því 42,8%.
Kjörfundur stendur til klukkan 22:00 á Héraði og Seyðisfirði. Ekki verður hægt að byrja að telja á Djúpavogi og Borgarfirði fyrr en búið er að kjósa á öllum stöðunum.