HAUST: Einu sinni á tuttugu árum dæmt húsnæði óíbúðarhæft
Almenningur getur leitað til heilbrigðiseftirlits og fengið skoðun á húsum sínum ef hann hefur grun um að það fullnægi ekki kröfum um hollustuhætti. Afar sjaldgæft er að húsnæði sé dæmt óbúðarhæft.
„Ég hef einu einni á tuttugu árum dæmt húsnæði óíbúðarhæft,“ sagði Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST) á íbúafundi sem haldinn var á Egilsstöðum um áhrif myglusvepps í íbúðarhúsnæði á heilsufar fólks.
Hægt er að leita til HAUST sem skrifa húsaskoðunarskýrslu ef fólk telur að húsnæði fullnægi ekki hollustuháttum. Sá sem biður um skýrsluna fær hana í hendur en eigandi er ábyrgur fyrir lagfæringum. HAUST getur bannað útleigu húsnæðis en ekki er hægt að banna eigendum að búa í húsum sínum.
Helga sagði að enn hefði ekki verið beðið um úttekt HAUST á íbúðum þeim sem ÍAV byggði á Egilsstöðum og Reyðarfirði fyrir nokkrum árum. „Það er enginn ágreiningur um að það er raki í húsunum og hugsanlega mygla. Það deilir enginn um uppruna og ljóst að þarf að laga. Vandinn er að íbúum í húsum með raka og myglu líður auðvitað ekki vel.“
Helga fór yfir nokkur einföld ráð sem hugsanlega gætu dregið úr áhrifum myglunnar þar sem menn geta ekki farið úr húsnæðinu. Mikilvægast sé að tryggja loftskipti í húsunum, lofta út, nota viftur og forðast rakamyndun. Mikilvægt sé að þrífa alla sjáanlega myglu í burtu.