Hefur trú á að verktakinn komi sorphirðunni aftur í samt lag

Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar segist hafa trú á að verktaki, sem sér um almenna sorphirðu fyrir sveitarfélagið, komi skikkan á skipulag sorphirðunnar innan tíðar. Íbúar eru orðnir langþreyttir á að lítið mark sé takandi á sorphirðudagatali. Bæjarráðið greip inn í eftir að verktakinn dreifði svörtum ruslapokum á heimili sem biðu sorphirðu í byrjun vikunnar.

Íbúar í Fjarðabyggð, sérstaklega í Neskaupstað, hafa verið ósáttir við sorphirðuna í sumar og segja að ítrekað hafi sorphirðudagatöl ekki staðist. Þeir viti því ekkert lengur hvaða tunna sé tekin í hvaða viku.

Kubbur ehf. sér um sorphirðuna í Fjarðabyggð. Í byrjun vikunnar var á vegum Kubbs dreift svörtum ruslapokum við heimili í Neskaupstað og á Eskifirði með skilaboðum til íbúa um að setja í pokana það rusl sem annars færi í grænu tunnuna, vegna tafa sem orðið hafa á að hún yrði hirt. Pokarnir yrðu teknir um leið og tunnurnar yrðu næst tæmdar.

Í fundi sínum í byrjun vikunnar fól bæjarráð bæjarstjóra að ræða tafarlaust við fyrirtækið um raunhæfar lausnir og úrbætur þar sem ítrekaðar tafir á sorphirðu hefðu valdið íbúum óþægindum og óásættanlegu ástandi.

Svörtu ruslapokarnir kornið sem fyllti mælirinn


Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs, segir að stjórnendur Fjarðabyggðar hafi um skeið haft áhyggjur af gangi mála og tekið stöðuna á fyrirtækinu. Í sumar hafi Kubbur skýrt tafirnar með manneklu sem tekist hafi að bæta úr. Hún hafi hins vegar bitnað misilla á byggðakjörnum og því sé staðan ekki alls staðar jafn slæm. Um þverbak hafi hins vegar keyrt þegar ruslapokunum var dreift í byrjun vikunnar.

„Þetta var ekki í samræmi við okkar ákvarðanir. Það er gott að reyna að finna lausnir en við sættum okkur ekki við þessa. Við töldum þetta verið komið út í óviðunandi ástand og kröfðumst skýrari úrbótaáætlunar frá fyrirtækinu,“ segir Ragnar.

Fulltrúar sveitarfélagsins funduðu með stjórnendum Kubbs í dag. Ragnar segir fundinn hafa verið gagnlegan og vonast til að hann skili tilætluðum árangri. Í bókun bæjarráðs fer það fram á að vera upplýst um þróun mála reglulega en annar fundur er fyrirhugaður strax á morgun.

„Þetta var góður fundur og fyrirtækið ætlar sér að finna lausnir og ganga hratt og örugglega til verks. Úrbæturnar felast í að fyrirtækið skoðar innan sinna raða hvaða svigrúm sé til að vinna upp þessar tafir, aðrar en að fólk safni ruslinu í poka. Það voru allir sammála um að sú lausn gengi ekki. Þess vegna hef ég fulla trú á að fyrirtækið taki sig á og standi sig betur.“

Aðspurður svarar Ragnar að ekki hafi enn verið rætt að segja upp samningnum. Kubbur fékk sorphirðuna að undangengnu útboði árið 2021 og gerður var samningur sem gildir út árið 2025. Ragnar segir sveitarfélagið bera ákveðnar skyldur til að vinna með verktakanum og leiðbeina honum en hann verðskuldi líka tíma til að bæta sig. Málin verði hins vegar skoðuð nánar ef ástandið batnar ekki.

Þörf á að skoða sorpmál í Fjarðabyggð í heild


En það er ekki bara sorphirðan sjálf sem ergt hefur íbúa Fjarðabyggðar síðustu mánuði. Breytingar á móttökustöðvum sveitarfélagsins í fyrra, þar sem opnunartími var styttur og tekið upp klippikort til að tryggja greiðslu fyrir það sem hent er í takt við nýjar reglur, hafa einnig verið óvinsælar. Ragnar segir þörf á að endurskoða alla sorphirðu sveitarfélagsins og sú vinna sé hafin.

„Svo ég tali hreint út þá er almennt ekki mikil ánægja með sorphirðuna og ég deili þeirri skoðun íbúa. Staðan í Fjarðabyggð er hins vegar ekki eindæmi því sorpmálin eru sífellt að verða stærri og þyngri málaflokkur hjá sveitarfélögunum. Lagaumhverfið hefur breyst þannig að nú þarf að borga þegar hent. Við getum ekki varpað því öllu beint á íbúana en það þarf líka að reka þjónustuna með skynsömum hætti.

Fólk flokkar meira en áður, eins og hvatt hefur verið til. Sum sveitarfélög hafa svarað því með að koma upp grenndargámum meðan við erum með móttökustöðvar sem eru yfirgripsmeiri og þurfa að uppfylla strangari kröfur. Ég held að allir í bæjarstjórn séu sammála um að núverandi ástand og þessi óánægja halli á heildarendurskoðun málaflokksins og hún er farin af stað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.