„Hefur verið afskaplega leiðinleg heyskapartíð“
Bóndi í Breiðdal segist einu sinni áður á tæplega 40 ára búskaparferli hafa lokið fyrsta slætti síðar en í ár. Óveðrið í byrjun júní leiddi af sér keðjuverkun og þurrkur hefur verið ótryggur. Einhverjir bændur eru enn eftir.„Við kláruðum fyrsta slátt á sunnudag. Þetta er búin að vera afskaplega leiðinleg heyskapartíð,“ segir Gróa Jóhannsdóttir, bóndi að Hlíðarenda í Breiðdal.
Óveðrið í byrjun júní leiddi til þess að sauðfjárbændur voru lengur með fé heima á túnum en ella. „Í okkar tilfelli þýddi það að við þurftum að beita þau tún sem við höfum vanalega friðað sem aftur seinkar slætti.“
Vika í júlí bjargaði málunum
Frá 9. - 15. júlí var afskaplega gott veður á Austurlandi en einkum hjá sauðfjárbændum var grasið vart orðið nógu sprottið eftir beit vorsins til að heyja. „Við slógum töluvert þá þótt grasið væri ekki fullsprottið þannig við næðum góðu heyi.
Síðan hefur varla komið þurr dagur og við höfum hirt hey alltof blautt. Þess vegna er um þriðjungur heysins mjög gott en síðan hrapa gæðin. Við náðum að hirða dálítið í kringum 25. júlí sem ég held að sé allt í lagi.
Það sem við höfum heyjað í ágúst er orðið vel úr sér sprottið. Ég er þó hissa á hvað það lítur vel út. Það er ekki orðið fúið í rótina og er þokkalega blaðmikið þótt það sé kominn skelfilegur puntur.“
Nægt hey en lélegt
Á Hlíðarenda voru síðasta vetur um 250 ær á fóðrum og segist Gróa vera komin með nóg hey fyrir veturinn. Spurningin sé um gæðin. „Við vorum laus við kal og slíkt í vor þannig að þetta hefði verið mjög gott ef vorið hefði verið eðlilegt. Við erum með nógu margar rúllur, en það er spurning um fóðureiningarnar.
Hérna suðurfrá eru þeir bændur sem náðu einhverju um miðjan júlí þokkalega settir því þeir fengu ágætt sauðburðarhey. Það voru hins vegar ekki allir sem gátu byrjað þá og þeir eru enn að heyja. Ég held að flestir fái nóg magn en það er sprning um gæðin.“
Rigning tefur fyrir hánni
Stefnan á Hlíðarenda er að slá há á þeim túnum sem fyrst var heyjað á. „Hún er orðin ágætlega sprottin. Í vætunni seinni part júlí var þokkalega hlýtt þannig það spratt það vel að það þarf að hirða hána. Helst hefðum við viljað fara beint í hana en það er spáð rigningu seinni partinn í dag. Þeir sem eru seinir að slá eiga litla von um há, því þeir þurfa líka að hafa beit þegar féð kemur af fjalli.
Gróa og maður hennar, Arnaldur Sigurðsson, tóku við búin á Hlíðarenda árið 1986. Hún segir þetta eitt versta sumarið sem þau hafi upplifað. „ Árið 1988 kláruðum við um miðjan september. Þá vorum við með rúlluvél sem ekki réði við mjög blautt hey. Við ættum enn mikið eftir ef við værum með þá vél. Árið 1995 vorum við að klára undir mánaðamótin ágúst/september. Árið 2005 var mikið kal og lítil spretta en það gekk ágætlega að heyja. Af og til höfum við fengið leiðinleg sumur en alltaf veðurglugga til að klára á skikkanlegum tíma.“
Úr Breiðdal síðasta sunnudag. Mynd: Gróa Jóhannsdóttir