Hegningarlagabrot hlutfallslega fæst á Austurlandi

logreglumerki.jpg
Hegningarlagabrot eru hvergi hlutfallslega færri á Íslandi heldur en á Austurlandi þrátt fyrir að þeim hafi fjölgað í fjórðungnum árið 2011 samanborið við árin tvö á undan. Umferðarlagabrotum fækkaði en þau eru algeng á svæðinu. 

Þetta kemur fram í afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóra fyrir árið 2011. Hegningarlagabrot á Austurlandi voru 199 á hverja 10.000 íbúa og fjölgaði lítillega í báðum lögregluumdæmum fjórðungsins. 

Umferðarlagabrotin voru á móti 1.693 á hverja 10.000 íbúa. Þau eru aðeins fleiri Suðurlandi og Vesturlandi og Vestfjörðum, sem eru saman í greiningunni. Brotunum fækkaði í báðum umdæmunum en eru töluvert algengari í umdæmi lögreglustjórans á Eskifirði. Af einstaka brotaflokkum fækkaði umferðarbrotum mest á landsvísu.

Sérrefsilagabrotum fjölgaði töluvert í Eskifjarðarumdæminu og eru um tvöfalt fleiri þar miðað við íbúafjölda í Seyðisfjarðarumdæminu þar sem þeim fækkaði. Á Austurlandi voru þessi brot 121 á hverja 10.000 íbúa. Flest voru þau á Suðurlandi, sem sker sig úr með 171 brot á hverja 10.000 íbúa en fæst á Höfuðborgarsvæðinu.

Kynferðisbrotum fjölgaði töluvert í báðum umdæmunum. Í Seyðisfjarðarumdæmi voru skráð fjögur slík brot, þar af tvær nauðganir, en þau voru engin árin 2009 og 2010. Í Eskifjarðarumdæmi fjölgaði slíkum brotum um helming. Þau voru tíu árið 2011, þar af fimm nauðganir. Í hvoru umdæmi fyrir sig var skráð eitt kynferðisbrot gegn barni.

Af öðrum einstökum brotaflokkum sem nefndir eru í skýrslunni má nefna að ofbeldisbrotum og áfengislagabrotum fækkar lítillega í fjórðungnum, auðgunarbrot og skjalafals eru álíka mörg milli ára en brotum gegn valdstjórninni fjölgar aðeins.

Í Eskifjarðarumdæmi fjölgaði fíkniefnabrotum en þau voru álíka brot í Seyðisfjarðarumdæminu. Eignarspjöllum fækkaði í Seyðisfjarðarumdæminu en stóðu í stað í Eskifjarðarumdæminu. Þjófnaður minnkaði í Seyðisfjarðarumdæminu en var svipaður í hinu. Brotum gegn friðhelgi einkalífsins fjölgaði töluvert í Seyðisfjarðarumdæmi en fækkaði í Eskifjarðarumdæminu. Hótanir eru uppistaðan í þeim brotaflokki.

Heildarfjöldi brota á landsvísu hefur ekki verið minni síðan skráning þeirra hófst árið 1999.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar