Heilbrigðisráðherra: Ákvörðunin verður tekin fyrir austan
Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra, segist tilbúin að skoða fyrirhugaða lokun Sundabúðar í samráði við forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Þeir þurfi þó að taka loka ákvörðunina.
Þetta hefur Pressan eftir Guðbjarti í dag. Fyrr í vikunni var sagt frá því að hjón, sem búið hafi saman í sextíu ár, verði hugsanlega aðskilin þegar hjúkrunarheimilinu verði lokað í sparnaðarskyni.
„ Ég ætla að vona að það verði fundin lausn, en það er óvarlegt að gefa út hvar við leiðréttum eða hvernig fyrr en við sjáum heildardæmið,“ segir Guðbjartur.
Fimm manna hópur á hans vegum hefur undanfarna daga farið í kringum landið og hitt yfirmenn heilbrigðismála á hverju svæði. Hópurinn á síðan að skila af sér tillögum í næstu viku.
Guðbjartur segir niðurskurðinn á Vopnafirði fyrst og fremst á borði HSA en ráðuneytið sé tilbúið að skoða máli í samvinnu við stofnunina.
„Það er auðvitað aldrei æskilegt og það á alls ekki að skilja sundur hjón með því að flytja fólk hreppaflutningum milli svæða. Þetta þarf að meta í hverju einasta tilfelli miðað við aðstæður á hverjum stað“