Heilsíða um Agnieszku í New York Times

Bandaríska stórblaðið New York Times lagði heilsíðu undir ljósmyndir Agnieszku Sosnowsku úr Hróarstungu í menningarhluta útgáfu sinnar síðasta sunnudag.

Umfjöllunin birtist í menningarhlutanum „Inside Culture“ um helgina. Á síðu tvö eru sex myndir eftir Agnieszku en vikulega er tekinn fyrir einn ljósmyndari sem myndritstjórn blaðsins þykir sérstaklega áhugaverður.

Myndirnar eru úr bókinni „För“ sem er að koma út um þessar mundir. Þar leitast Agnieszka við að fanga og sýna daglegt líf í Hróarstungu þar sem hún hefur búið ásamt manni sínum á Kleppjárnsstöðum í að verða 20 ár.

„Það gilti einu fyrir mig hvort það var Reykjavík eða Hróarstunga, enda hafði mig dreymt um að búa í sveit frá því að ég var lítil,“ sagði Agniezka í viðtali við Austurgluggann árið 2020.

Hún er fædd í Póllandi en fluttist til Bandaríkjanna og nam ljósmyndun í Boston. Hún kom til Íslands sem ferðamaður og féll fyrir landinu.

Anieszka vinnur einnig sem kennari í Brúarásskóla. Í stuttu viðtali við New York Times segir hún sitt eftirlætisviðfangsefni vera að vinna með ungu fólki og kenna hvernig eigi að vinna með filmur og framkalla þær í myrkraherbergi.

Í sumar stendur einnig yfir sýning sem kallast „Rask“ í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Þar vinnur hún með Ingunni Snædal, skáldi með myndir og ljóð sem vitna til um þróun lands og eyðingu. Þær bregðast við list hvor annarrar og því sem þær skynja og upplifa í röskuðu og rofnu umhverfi en jarðvegsrof á Austurlandi er víða umtalsvert. Sýningin stendur út sumarið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar