Heilsugæslunni í Neskaupstað lokað til að verja sjúkrahúsið

Breytingar hafa verið gerðar á opnunartíma heilsugæslustöðva á Austurlandi til að hindra útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Sýni af þeim kunna að hafa sýkst af veirunni eru tekin á þremur stöðvum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA). Áhersla stofnunarinnar er tvíþætt, annars vegar tryggja að vera í stakk búinn að takast á við útbreiðslu veirunnar, hins vegar verja þá sem eru viðkvæmastir fyrir.

Í byrjun mánaðarins var lokað fyrir allar gestakomur á hjúkrunarheimili og sjúkradeildina í Neskaupstað. Nú hefur verið hert á, heilsugæslan þar er lokuð frá og með deginum í dag til að verja sjúkrahúsið.

Almennri heilsugæsluþjónustu er sinnt á heilsugæslu og bráðaþjónustu af vaktlækni á stöðvum HSA. Þá er forgagnsröðuð sálfræði – og sjúkraþjálfunarþjónusta á Egilsstöðum og Fáskrúðsfirði.

Áður en komið er á stöð fer hins vegar fram símtal milli þess starfsmanns sem hitta á og viðkomandi skjólstæðings. Hjúkrunarfræðingar sinna símaráðgjöf og forgangsraða inn á heilsugæslurnar.

Sýnataka vegna Covid-19 fer fram á þremur stöðum: Egilsstöðum, Reyðarfirði og Vopnafirði.

Símar heilsugæslunnar verða opnir frá 8:15-15:45. Upplýsinga- og ráðgjafasími vegna Covid19 - er 470-3066. Númerið er opið frá 8:30-12:00 og 12:30-15:30.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar