Heimastjórn telur sér hleypt of seint að forgangsröðun um ferðamannastaði
Heimastjórn Djúpavogs gerir athugasemdir við vinnubrögð byggðaráðs og umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings við forgangsröðun á framkvæmdum við ferðamannastaði og telur að hún sé of seint fengin að borðinu.Ráðin tvö hafa að undanförnu unnið að áætlun um röð framkvæmda á ferðamannastöðum í Múlaþingi til næstu fimm ára, sem aftur verður sótt um styrki fyrir til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða en koma líka inn á fjárhagsáætlun næsta árs. Forgangsröðunin er nú til meðferðar hjá heimastjórnum.
Í bókun heimastjórnarinnar á Djúpavogi segir að heimastjórnirnar ættu að koma að slíkri áætlanagerð strax í byrjun, en ekki í lokin þegar of seint sé að gera athugasemdir. Heimastjórnin vísar til þess að í byrjun maí hafi hún sent frá sér tillögur að verkefnum sem hægt yrði að sækja um í til Framkvæmdasjóðsins, en ekkert þeirra sér á áætlun í ár. Þá telur hún tækifæri til að sækja um fleiri verkefni en talin eru upp.
Heimastjórnin á Borgarfirði hefur ákveðið að rýna tillögurnar frekar þar sem í þeim var aðeins eitt verkefni á staðnum. Þær verða teknar aftur fyrir á næsta fundi.
Heimastjórn Fljótsdalshéraðs gerði engar athugasemdir við forgangsröðunina meðan heimastjórn Seyðisfjarðar sendi frá sér ábendingu. Ekki er nánar tekið fram í fundargerð hver hún var.