Heimastjórnarmaður ósáttur við starfsmenn Múlaþings

Einstaklingur í heimastjórn Borgarfjarðar eystri gagnrýnir harðlega að embættismenn á vegum Múlaþings ákveði einhliða hluti sem heimastjórnarfólki er ætlað að hafa nokkra stjórn á.

Ólafur Arnar Hallgrímsson, einn þriggja í heimastjórn Borgarfjarðar eystri, er ósáttur við að ráðnir embættismenn Múlaþings taki ákvarðanir sem að hans mati ættu að vera á forræði heimastjórnarfólks. Lét Ólafur sérstaklega bóka undrun og óánægju vegna þessa á síðasta fundi heimastjórnarinnar en þar var umfjöllunarefnið félagsmiðstöðin Fjarðarborg sem sárlega þarfnast andlitslyftingar til að standast nútíma kröfur.

„Í grunninn snýst þetta um að embættismenn sem voru að kynna okkur stöðu mála varðandi viðhald og endurnýjun á samfélagsmiðstöðinni okkar Fjarðarborg hafa bara ákveðið að aðeins komi ein tillaga til greina í því efni. Sú tillaga gerir ráð fyrir stórfelldum breytingum á húsnæðinu sem munu taka marga mánuði í framkvæmd að því er mér sýnist með tilheyrandi vandræðum fyrir rekstraraðila, íbúa og gesti. Þeir henda fyrir róða öðrum hugmyndum sem fram hafa komið, ná því sama fram varðandi aðgengi og ekki þarf að loka húsnæðinu vegna framkvæmda vikum og jafnvel mánuðum saman. Þvert á móti eiginlega því aðrar hugmyndir sem fram hafa komið sýna að hægt er að koma húsinu í æskilegt og gott horf með öðrum leiðum og án þess að loka því nema í mjög skamman tíma.“

Lengi hefur staðið til að fara í töluverðar breytingar á Fjarðarborg sem er eina félagsheimili Borgfirðinga en húsið barn síns tíma og uppfyllir lítt staðla nútímans og kröfur um aðgengi. Hugmyndin sú að með bættu aðgengi, meðal annars fyrir fatlaða, mætti nýta aðra hæð hússins mun betur en verið hefur gegnum tíðina.

Ein sú hugmynd sem Ólafur telur vænlegri en sú sem nú er unnið eftir er að koma fyrir stiga- eða lyftuhúsi aftan við húsið. Slíkt væri hægt að byggja án þess að loka þurfi húsinu lengi og myndi auk þess stækka nýtanlegt flatarmál hússins og skapa aukið geymslupláss. Sú tillaga sem nú er til skoðunar gerir ráð fyrir lyftuhúsi rétt innan við anddyrið sem þýðir að allt aðgengi gesta á meðan er útilokað. Þá minnkar ekki gólfpláss í anddyri hússins eins og sú tillaga sem nú er í vinnslu gerir ráð fyrir. Þar skal ekki aðeins setja lyftuhús út frá megininngangnum heldur og kostar það töluverðar breytingar á anddyrinu sjálfu og myndi setja alla starfsemi í húsinu í uppnám í töluverðan tíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar