Heimastjórnir í nýju sveitarfélagi

Gert er ráð fyrir að fjórum þriggja manna heimastjórnum verði falið afgreiðsluvald gagnvart völdum verkefnum í sínu nærumhverfi í nýju sveitarfélagi á Austurlandi sem til gæti orðið við sameiningu fjögurra sveitarfélaga.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði starfshóps á vegum sveitarfélaganna Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar um fjármál og stjórnsýslu. Hugmyndir starfshópanna verða nánar kynntar á íbúafundum sem haldnir verða í vikunni en sá fyrsti verður á Borgarfiðri í kvöld.

Starfshópurinn leggur áherslu á að gera stjórnkerfið einfalt og skilvirkt þannig að starfræktar verði fáar fagnefndir en þær fundi oftar en gert er.

Gert er ráð fyrir þremur fagnefndum, bæjarráði, fjölskylduráði og umhverfis- og framkvæmdaráði sem fundi vikulega á hefðbundnum vinnutíma. Í þeim sitji að mestu kjörnir fulltrúar og kjörum verði breytti þannig að þeir sem veljast til starfanna geti verið í hlutastörfum á öðrum vettvangi.

Bæjarstjórn verður eftir sem áður æðst og fundar mánaðarlega. Áfram verða til staðar nokkur sérráð svo sem ungmennaráð og öldungaráð.

Til viðbótar verða þriggja manna heimastjórnir í byggðakjörnunum fjórum. Þær hafi ákveðið afgreiðsluvald gagnvart sínu nærumhverfi auk þess að hafa ráðgjafarhlutverk gagnvart bæjarstjórn. Með hverri heimastjórn starfi fulltrúi bæjarstjóra sem hafi aðsetur á viðkomandi stað.

Þá er lögð áhersla á rafræna stjórnsýslu til að sinna þjónustu við íbúa í víðfeðmu sveitarfélagi. Eftir sem áður verði staðbundin afgreiðsla í öllum meginkjörnum.

Ennfremur kemur fram í minnisblaðinu að svigrúm til árlegra fjárfestinga sé 235-485 milljónir króna, miðað við að framkvæmdir verði eingöngu fjármagnaðar með eigin fé. Hópurinn telur sveitarfélagið vel sjálfbært og standast vel reglur um skuldastöðu og rekstrarafkomu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar