Heimir Þorsteins: Mér fannst við feigir í allt sumar
Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar féll í gær úr annarri deild karla eftir 2-3 ósigur gegn Aftureldingu á Eskifjarðarvelli. Þjálfarinn, Heimir Þorsteinsson, segir ógæfuna hafa elt liðið í allt sumar og það hafi ekkert breyst í gær. Hann telur hópinn það sterkan að liðið fari fljótt upp aftur en ætlar ekki að halda áfram þjálfun liðsins.
Eskifjarðarvöllur var rennblautur þegar flautað var til leiks. Fjarðabyggð byrjaði ágætlega en á 23. var dæmd vítaspyrna á hendi. Steinar Ægisson kom Aftureldingu yfir úr vítinu og Sævar Alexandersson kom Mosfellingum í 2-0 tíu mínútum síðar. Fannar Árnason minnkaði munni í 1-2 fimm mínútum fyrir leikhlé.
Aðeins voru sex mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar Egill Gautur Steingrímsson skoraði þriðja mark Aftureldingar, mark sem Heimir segir að hafi verið rothögg.
„Við lentum strax undir. Við urðum að vinna og ég held að það hafi farið inn í kollinn á okkur. Þriðja markið drap okkur. Við fórum strax í að taka sénsa og leikurinn hefði allt eins getað endað 5-7.“
Svo fór þó ekki, Ingi Steinn Freysteinsson minnkaði muninn í 2-3 á 63. mínútu úr víti. Fleiri urðu löglegu mörkin ekki en mark var dæmt af Aftureldingu vegna rangstöðu og Fjarðabyggð klúðraði dauðafæri.
Þetta var stóri leikurinn
„Þessi leikur sýndi sumarið í hnotskurn. Við sóttum á þá en það vantaði síðustu sendinguna og við værum grimmari og klókari.“
Fimm stigum munaði á Fjarðabyggð og Gróttu fyrir leikinn í gær. Vonin hefði því lifað með sigri. „Þetta var stóri leikurinn. Ég er viss um að við hefðum haldið okkur uppi ef við hefðum unnið. Ég verð að hrósa strákunum því ég held að þeir hafi aldrei misst trúna á að við gætum forðast fallið.“
Stöngin út í allt sumar
Staðreyndin er önnur, Fjarðabyggð leikur í nýju þriðju deildinni að ári. „Við verðum að taka þetta á okkur allir sem einn. Það er hundleiðinlegt að lenda í þessu. Það eru mörg atvik frá sumrinu sem rifjast upp og maður hugsar „ef“ og „kannski.“
Mér fannst við vera feigir í allt sumar. Það féll lítið með okkur og margsinnis töpuðum við leikjum með að fá á okkur mörk seint í þeim. Þetta hefur verið stöngin út í allt sumar.“
Heimir hefur trú á að liðið verði fljótt að vinna sig aftur upp um deild. „Það býr hellingur í liðinu, það náði bara aldrei að springa út. Það er líklegt að mannskapurinn verði mjög svipaður. Ég ræddi við strákana inni í klefa eftir leik og þeir virtist flestir ætla að verða áfram. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því að veran verði löng þarna niðri ef sami mannskapur heldur áfram.“
Verðlauna ekki sjálfan mig fyrir að falla tvisvar á þremur árum
Ein breyting er örugg. Heimir hættir sem þjálfari eftir leiktíðina. Hann fylgdi því upp sem þjálfari úr þriðju deildinni á sínum tíma, var viðloðandi liðið sem liðsstjóri í fyrstu deildinni meðan Þorvaldur Örlygsson stýrði því, tók við því sumarið 2008 og bjargaði því frá falli. Árið eftir var liðið næstum komið upp í úrvalsdeild en síðan hefur fallið verið skarpt.
„Annars vegar er ég að fara í vinnu sem leyfir mér ekki að halda áfram, hins vegar verðlauna ég ekki sjálfan mig fyrir að fara niður úr tveimur deildum á þremur árum. Það lifir enginn fótboltaþjálfari það af. Fjarðabyggð þarf nýtt blóð.“
Hinn þjálfarinn, Haukur Ingvar Sigurbergsson, hefur ekki ákveðið hvað hann ætli að gera. Í samtali við Austurfrétt í gær sagðist hann ætla að ákveða sig eftir tímabilið.
Að kljúfa Fjarðabyggð yrði eins og að vilja ekki litasjónvarp
Sögur hafa gengið um að fall þýði endalok KFF. Bent hefur verið á að á ýmsu hafi gengið í samstarfi Þróttar, Austra og Vals. Illa hafi gengið að mynda stemmingu á Eskifjarðarvelli og langflestir leikmenn liðsins séu Norðfirðingar.
Haukur og Heimir hafa heyrt þessar sögur en hafna því að það gerist meðan þeir komi nálægt félaginu. „Þetta yrði stórt skref aftur á bak,“ segir Heimir. „Þetta yrði næstum eins og að vilja ekki litasjónvarp!“