Heita því að vinna að jafnréttismálum af heilum hug

Aðeins ein kona verður í meirihluta fyrstu sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Oddviti Sjálfstæðisflokks kveðst fagna umræðunni um jafnréttismál.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur kynntu í gær samstarf sitt um meirihluta í hinu nýja sveitarfélagi. Flokkarnir eiga samanlagt sex bæjarfulltrúa af ellefu, Sjálfstæðisflokkurinn fjóra og Framsóknarflokkurinn tvo. Af þeim er aðeins ein kona, Berglind Harpa Svavarsdóttir, sem skipaði annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins.

„Þegar við fórum til viðræðna um þennan meirihluta lögðum við aðallega þrennt til grundvallar. Í fyrsta lagi málefnin en það var nokkur samhljómur milli framboðanna í málefnaskrá. Í öðru lagi það traust sem ríkti milli fólks og í þriðja lagi var horft til reynslunnar.

Ég get ekki talað fyrir hönd Framsóknarflokksins en í efstu tveimur sætunum hjá okkur voru karl og kona og tíu efstu sætunum voru hlutföllin jöfn. Ég fagna hins vegar umræðunni um þetta því hún sýnir að fólk er á tánum í þessum efnum, sem er gott,“ sagði Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokks.

„Að baki framboðunum eru öflugir hópar og listar. Hlutur kynjanna var jafn á listunum en hlutirnir æxluðust þannig að við erum tveir karlar inni af lista Framsóknarflokks. Næsti maður inn hjá okkur var kona og við hefðum gjarnan viljað fá fleiri fulltrúa.

Það sem máli skiptir nú er að sýna það í verki að það ríkir jafnréttishugsjón innan framboðanna og meirihlutans. Það kemur fram í hvernig við skipum í ráð. Ég kem kinnroðalaust fram og segi að við munum vinna að jafnréttismálum af heilum hug,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.