Helgin: Fyrsta afmælisveisla Einherja í 70 ár

Haldið verður upp á 90 ára afmæli UMF Einherja á Vopnafirði á morgun. Mikil vinna hefur verið lögð í að skrásetja sögu félagsins og meðal annars verður ný heimildamynd frumsýnd á hátíðinni. Aðventustemming er annars áberandi á Austurlandi um helgina.

„Félagið skóp samfélagið og gerir enn. Einherji á hlut í hverjum Vopnfirðingi og hver Vopnfirðingur á hlut í Einherja,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, söguritari ungmennafélagsins.

Félagið var stofnað þann 1. desember árið 1929 og varð því 90 ára um síðustu helgi. Miklu er til kostað á Vopnafirði um helgina því ekki hefur verið haldið upp á afmæli Einherja frá árinu 1949.

Á hátíðinni í Vopnafjarðarskóla á morgun verður meðal annars farið yfir sögu félagsins í málum og myndum auk þess sem þar verður frumsýnd heimildamynd um það eftir Bjart og Heiðar bróður hans. Í auglýstri dagskrá var boðað að sýnd yrði stikla úr myndinni en reyndin er að hún verður sýnd í heild sinni. „Við tókum hana upp á tveimur helgum og klipptum á tveimur dögum,“ segir Bjartur.

Hann hefur síðustu misseri tekið saman sögu félagsins. „Það er ástin á félaginu og virðing fyrir sögunni. Ég hugsaði að einhver þyrfti að koma þessu í réttan farveg svo maður geti stigið frá verkefninu. Þetta hefur tekið yfir hluta af lífi hans í langan tíma, sérstaklega síðasta mánuðinn.“

Lesið upp úr Aðventu

Aðventan setur annars svip sinn á viðburði helgar innar á Austurlandi. Á Skriðuklaustri verður á sunnudag árlegur lestur úr Aðventu, sögu Gunnar Gunnarssonar. Eins og Austurfrétt hefur áður greint frá er lesið upp úr bókinni víða um heim þessa dagana en um helgina verður lesið á Klaustri og í Gunnarshúsi að Dyngjuvegi 8 í Reykjavík.

Á Skriðuklaustri verður það Benedikt Karl Gröndal, leikari og blaðamaður Austurfréttar, sem les en í Reykjavík Gunnar Björn Gunnarsson, barnabarn skáldsins. Á báðum stöðum hefst lesturinn klukkan 13:30.

Aðventa kom fyrst út árið 1936 og hefur síðan komið út á yfir 20 tungumálum. Nýverið kom hún út í nýrri útgáfu hjá Zulma forlaginu í Frakklandi, sem gefið hefur út íslensk samtímaskáld þarlendis.

Þeir sem vilja sameina ungmennafélagsandann og bókmenntirnar geta lagt leið sína í Safnahúsið í Neskaupstað í kvöld. Þar stendur UMF Egill rauði til sagnakvölds með Einari Kárasyni sem fjallar um Sturlungu.

Listaverkauppboð fyrir ferðasjóð

Á Seyðisfirði verður haldið listaverkauppboð á morgun til styrktar ferðasjóði 8. og 9. bekk Seyðisfjarðarskóla. Meðal annars verða boðin upp verk eftir Garðar Eymundsson, Jökul Þórðarson, Lasse Hagenhof, Þórarinn Jónsson, Ingarafn Steinarsson, Litten Nystrøm og Linus Lohmannnus, Guðjón Harðarson, Vigdísi Helgu Jónsdóttur, Rúnar Loft Sveinsson, Pétur Kristjánsson og Rafael Vázques. Uppboðið verður í Herðubreið og hefst klukkan 15:00.

Aðventukvöld verða í þremur kirkjum á Héraði. Í Vallaneskirkju á laugardag og á Egilsstöðum og Valþjófsstað á sunnudagskvöld.

Þá verður opið hús og jólasýning Hallormsstaðaskóla milli klukkan 13 og 15 á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar