Helgin: „Vildi gefa ungum krökkum tækifæri til að koma fram með topp tónlistarfólki“
„Ég setti þetta verkefni saman í ágúst í fyrra með tvær megin ástæður í huga. Annars vegar að gefa grasrótinni hér og ungum krökkum tækifæri til að koma fram með topp tónlistarfólki, hins vegar til að styrkja gott málefni“, segir Bjarni Þór Haraldsson, skipuleggjandi Dio heiðurstónleika sem verða í Valaskjálf laugardaginn 9. september.Hann bjargaði unglingsárunum mínum
Heiðurstónleikarnir eru til minningar um Ronnie James Dio, sem var meðal annars söngvari rokksveitannna Black Sabbath, Elf og Rainbow. „Ástæða þess að við heiðrum Dio er sú að hann bjargaði unglingsárunum mínum. Ég var algjör gelgja og frekar hallærislegur bara. Svo kom þessi rokksöngvari inn í líf mitt og ég hætti að vera hallærislegur“, segir Bjarni.
Á að vera jafn sjálfsagt að hafa aðgang að æfingahúsnæði líkt og íþróttahúsi
Bjarni Þór vildi nota tækifærið og hvetja unga tónlistarmenn áfram og búa til vettvang þar sem það gæti blómstrað. „Ég vildi búa til stórt og metnaðarfullt verkefni, góðar minningar og gefa þeim tækifæri. Mér hefur þótt grasrótarmenningin lítil víða á Austurlandi og langaði til að breyta því“, segir Bjarni Þór. Hann segist vonast til þess að jafningar þessara krakka sem í sýningunni eru, sjái hvað er hægt að gera með metnaði og það smiti út frá sér. „Að mínu viti er ekkert minna forvarnargildi í að ungt fólk spili tónlist eins og að stunda íþróttir. Mér finnst við ekki hafa sinnt þessu nógu vel. Það á að vera jafn sjálfsagt að hafa aðgang að æfingahúsnæði eins og íþróttahúsi“, segir Bjarni Þór.
Allur ágóði til geðheilbrigðismála ungmenna hjá HSA
„Ég var alveg viss um það að ég vildi láta allan ágóðan renna í gott málefni. Ég valdi geðsvið HSA, með áherslu á geðheilbrigðismál ungmenna. Ég vil að þessir peningar fari í að koma upp aðgengi að námskeiði sem heitir Klókir krakkar og er fyrir börn með kvíða.
Meðal tónlistarfólksins sem kemur fram eru austfirsk ungmenni sem Bjarni valdi sérstaklega út á hæfileika þeirra. „Það er algjörlega frábært að sjá þau vaxa og blómstra í þessu. Sem dæmi þá er stelpan á trommunum 14 ára og hún gjörsamlega á settið!“, segir Bjarni Þór.
Myndkveðja frá syni rokkarans
Sonur rokksöngvarans mun ávarpa gesti í byrjun tónleikanna í myndbandi sem hann sendi Bjarna persónulega. „Ég hringdi í hann og sagði honum frá þessum tónleikum. Honum fannst þetta svo ótrúlega skemmtilegt að hann sendi stutta myndbandskveðju til mín“.