Helmingi fleiri farartæki í fyrstu ferð Norrænu
Helmingi fleiri farartæki komu í fyrstu ferð Norrænu þetta árið heldur en í fyrra. Ferjan kom fyrr en áætlað var til að forðast óveður. Ekki hafa enn borist tíðindi af tjóni eða óhöppum í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi.Norræna kom seinni part mánudags til Seyðisfjarðar vegna veðurspár en hún kemur vanalega á þriðjudagsmorgnum. Ferjan fer hins vegar á venjubundnum tíma klukkan 22:00 í kvöld.
Að þessu sinni komu 32 ökutæki með ferjunni, samanborið við 16 í fyrstu ferðinni í fyrra. Farþegar voru 68 talsins. Ökutækjunum þurfti að koma í land en farþegar fengu að gista um borð í ferjunni frekar en leggja af stað í hvassvirði og hálku á Fjarðarheiði.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi gekk vel að tollafgreiða ferjuna en eftirlit hefur verið hert, meðal annars eftir nokkur stór fíkniefnamál sem upp komu í tengslum við ferjuna, í fyrra. Þá tóku um áramótin gildi ný lög sem leggja auknar skyldur á herðar þeirra sem flytja ökutæki til landsins.
Vikan hefur annars verið róleg hjá lögreglunni á Austurlandi og ekki hafa borist tilkynningar um umferðaróhöpp í hálku á vegum í gær né í morgun, þrátt fyrir fréttir þar um.
Ekki hefur heldur verið tilkynnt um foktjón í hvassviðrinu sem nú gengur yfir fjórðunginn. Austfirðingar virðast almennt vel undir búnir enda stormurinn einungis sá síðasti í röðinni undanfarinn mánuð.
Veðurstofan gaf í gær út gula viðvörun vegna stormsins sem gildir til klukkan 17:00 í dag á Austfjörðum. Spár gera þó ekki ráð fyrir að vindinn lægi að ráði fyrr en seint í kvöld.