Helmingsfækkun í sóttkví á tveimur dögum
Innan við eitt hundrað manns eru nú í sóttkví á Austurlandi og hefur fækkað hratt síðustu tvo daga. Ekkert nýtt covid-19 smit hefur komið fram á sama tíma.Þetta kemur fram í tilkynningu almannavarna. Í sóttkví eru 98 einstaklingar og hefur fækkað um 52 frá í gær. Fyrir tveimur dögum voru 204 einstaklingar í sóttkví. Eftir sem áður eru fjórir einstaklingar smitaðir.
Enn eru hlutfallslega fá smit á Austurlandi. Þótt aðgerðastjórn telji það gleðilegt minnir hún á að staðan geti breyst fljótt. Íbúar þurfi því sem áður að fylgja leiðbeiningum sóttvarna í sameiningu. Vísað er til leiðbeininga um að láta fjalla- og sumarbústaðaferðir eiga sig. „Hvorutveggja getur lagt þá stöðu sem við búum við í tvísýnu,“ segir í tilkynningu.
Þá áréttar aðgerðastjórnin að íbúar fækki ferðum í matvöruverslanir og geri stærri innkaup í hverri ferð. Þá sé brýnt að fylgja leiðbeiningum í verslunum svo og frá starfsfólki enda sæe álag þar mikið og ekki meira á þá starfsemi leggjandi.
„Höldum ró okkar en einnig vöku, styðjum hvert annað og hjálpumst að í þessari baráttu hér eftir sem hingað til.”