Helmingsfækkun í sóttkví á tveimur dögum

Innan við eitt hundrað manns eru nú í sóttkví á Austurlandi og hefur fækkað hratt síðustu tvo daga. Ekkert nýtt covid-19 smit hefur komið fram á sama tíma.

Þetta kemur fram í tilkynningu almannavarna. Í sóttkví eru 98 einstaklingar og hefur fækkað um 52 frá í gær. Fyrir tveimur dögum voru 204 einstaklingar í sóttkví. Eftir sem áður eru fjórir einstaklingar smitaðir.

Enn eru hlutfallslega fá smit á Austurlandi. Þótt aðgerðastjórn telji það gleðilegt minnir hún á að staðan geti breyst fljótt. Íbúar þurfi því sem áður að fylgja leiðbeiningum sóttvarna í sameiningu. Vísað er til leiðbeininga um að láta fjalla- og sumarbústaðaferðir eiga sig. „Hvorutveggja getur lagt þá stöðu sem við búum við í tvísýnu,“ segir í tilkynningu.

Þá áréttar aðgerðastjórnin að íbúar fækki ferðum í matvöruverslanir og geri stærri innkaup í hverri ferð. Þá sé brýnt að fylgja leiðbeiningum í verslunum svo og frá starfsfólki enda sæe álag þar mikið og ekki meira á þá starfsemi leggjandi.

„Höldum ró okkar en einnig vöku, styðjum hvert annað og hjálpumst að í þessari baráttu hér eftir sem hingað til.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.