Helmingur sjúkraflugs til Norðfjarðar fellt niður
Brýnt er að bæta flugvöllinn á Norðfirði þannig hann þjóni sjúkraflugi. Fella þarf niður um helming fyrirhugaðra ferða þangað vegna aðstæðna. Reykjavíkurflugvöllur er nauðsynlegur til að Landsspítalinn standi undir nafni sem slíkur.
„Vegna veðurfars og brautaraðstöðu á Norðfirði þarf að fella niður helming af flugunum þangað. Á haustin og vorin er völlurinn á kafi í drullu. Það er brýnt að bæta flugbrautina þar og vegi á milli Egilsstaða og Neskaupstaðar,“ segir Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs sem annast sjúkraflug á Austurlandi.
Vélar flugfélagsins eru staðsettar á Akureyri. Þaðan er styst til allra áfangastaða enda skipta mínúturnar oft máli þegar um sjúkraflug er að ræða.
„Yfir helmingur okkar útkalla eru þess eðlis að læknir metur að um lífsógn sé að ræða. 63% sjúklinga að austan eru fluttir til Reykjavíkur og 21% til Akureyrar. Það getur munað allt að hálftíma á því hvort vélin kemur frá Akureyri eða Reykjavík.“
Vegna þessara miklu flutninga skiptir höfuðmáli að flugvöllurinn í borginni sé í nágranni við aðalsjúkrahúsið.
„Menn verða að axla þá ábyrg að hafa flugvöll í nágrenni við landsspítala annars er þessi spítali ekki byggður fyrir okkur sem erum svo „vitlaus“ að búa úti á landi.“