Héraðsbúar hvattur til að safna fitu til að vernda lagnir og umhverfið
Hitaveita Egilsstaða og Fella (HEF) fagnaði 40 ára afmæli sínu um síðustu helgi með að gefa íbúum á Fljótsdalshéraði trektir til að auðvelda þeim að safna lífrænni fitu og olíum sem til fellur á heimilum. Markmið söfnunarinnar er að draga úr álagi á fráveitukerfi og hreinsivirki.„Það má safna öllu sem kalla má fitu, jafnvel þótt það séu matarleifar í henni, til dæmis steikingafitunni frá laufabrauðinu. Við viljum frekar frá leifarnar heldur en að olían fari út í kerfið. Fólk þarf ekkert að hreinsa eða sía,“ segir Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF.
HEF varð 40 ára síðasta föstudag. Hún var upphaflega stofnuð utan um boranir eftir heitu vatni í Urriðavatni sem reyndust árangursríkar. Þar eru í dag þrjár vinnsluholur, sú síðasta boruð árið 2005 og er aðalvinnsluhola veitunnar. Hún gefur af sér 77 lítra á sekúndu af 77° heitu vatni og er með öflugustu borholum við lághitasvæði á Íslandi.
Hitaveitan hefur síðan bætt við sig verkefnum. Árið 2005 tók hún við rekstri vatnsveitna Fljótsdalshéraðs og við fráveitukerfinu fjórum árum síðar. Þá var veitunni fyrr á þessu ári falið að sjá um að leggja ljósleiðara í dreifbýli en það verkefni er á byrjunarstigi.
Í tilefni afmælisins var sem fyrr segir ákveðið að gefa íbúum trekt til að safna lífrænni fitu og olíu. „Að safna fitunni minnkar verulega álagið á fráveitukerfið, bæði lagnir og hreinsivirki. Fitan sest innan í lagnir og stíflar þær.
Í heitri lögn flýtur fitan ofan á og nær alla leið í hreinsivirki. Þar kólnar hún og stroknar á yfirborði, þránar og veldur ólykt.“
Aðalsteinn segir það ekki síður hag húseigenda að safna fitunni heldur en hitaveitunnar. „Þeir eiga lagnirnar inni á sínum lóðum. Það eru ekki síður þær sem stíflast heldur en stóru götulagnirnar. Þessi fita á ekki heima úti í umhverfinu.“
Með trektinni má hella fitunni beint af pönnu, þegar hún hefur aðeins kólnað, í plastflöskur, til dæmis undan ropvatni. Aðalsteinn segir að það taki meðalheimil 6-12 mánuði að safna í tveggja lítra flösku og heppilegra sé að nota stærri flöskur en minni því þær séu stöðugri.
Flöskunum má síðan skila á móttökustöð Íslenska gámafélagsins á Egilsstöðum en félagið hefur í nokkurn tíma tekið á móti lífrænni fitu. Ekki er frágengið hvert fitan verði síðan send en viðræður hafa staðið yfir við áhugasama aðilar sem vilja nýta hana til að gera lífdísil.
Þeir sem ekki sóttu sér trektir á jólamarkaðinum síðasta laugardag geta fengið þær á skrifstofu HEF í Fellabæ eða í Húsi handanna á Egilsstöðum, endurgjaldslaust.
Jón Kristinn Auðbergsson, starfsmaður HEF, Aðalsteinn og Gunnar Jónsson, stjórnarformaður, kátir með trektarnar.