Herða varúðarráðstafanir á Djúpavogi út af Covid-19

Djúpavogshreppur hefur gripið til ráðstafna til að stemma stigu við að Covid-19 veiran dreifi sig um sveitarfélagið. Tveir íbúar voru settir í sóttkví í gær en skipsáhöfn sem kom þar við fyrir rúmi viku greindist öll með veiruna. Enginn hefur enn greinst á Djúpavogi. 

Sveitarstjóri Djúpavogshrepps sendi í morgun frá sér tilkynningu til íbúa um hertar aðgerðir vegna veirunnar. Tryggvabúð, félagsmiðstöð eldri borgara, verður lokuð næstu vikuna og salurinn í íþróttahúsinu fyrir almennri notkun sömuleiðis.

Íþróttatímar skólanna raskast þó ekki né æfingar Ungmennafélagsins Neista. Skólar staðarins fylgja áfram reglum um hreinlæti og umgengni sem verið hafa í gildi síðustu vikur. Þá eru íbúar hvattir til að virða fjarlægðarmörk og nota spritt samkvæmt ráðleggingum auk þess að vera vakandi fyrir einkennum.

Samkvæmt tölum á Covid.is er nú einn í einangrun vegna virks smits í fjórðungnum en voru tveir í gær. Ástæðan er að annar þeirra dvelur utan fjórðungs og hefur gert það frá greiningu, samkvæmt tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands. Fjórir eru í sóttkví, heldur færri en síðustu daga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar