Herdís Magna býður sig fram sem formaður Landssambands kúabænda
Herdís Magna Gunnarsdóttir frá Egilsstöðum gefur kost á sér sem formaður Landssambands kúabænda (LK). Fyrir liggur að nýr formaður verður kosinn á aðalfundi sambandsins í lok mars.Þetta kemur fram í grein Herdísar Mögnu sem birt er á vef Bændablaðsins í dag. Herdís Magna hefur verið í stjórn samtakanna í þrjú ár, þar af varaformaður undanfarin ár. Hún hefur að auki setið í ýmsum nefndum á vegum samtakanna.
Í greininni lýsir hún þeirri skoðun sinni að auknar rannsóknir og þekkingarmiðlun til bænda séu lykilatriði í framförum í greininni. Um þessar mundir sé þekkingaröflum á loftslagsmálum mest aðkallandi en sambandið hefur þegar látið vinna greiningu á kolefnisspori nautgriparæktar á Íslandi.
Samfara þessu séu stöðug verkefni í ímyndarmálum greinarinnar. Mikilvægt sé að LK taki virkan þátt í umræðunni og haldi eiginleikum íslenskrar framleiðslu á lofti.
Egilsstaðabúið framleiðir bæði kjöt og mjólk. Herdís Magna bendir á að nautakjötsframleiðslan hafi að undanförnu öðlast aukið vægi í starfi LK. Þar séu framundan nýjar áskoranir, en einnig tækifæri, vegna breytinga á markaði.
„Ég tel starf LK standa á ákveðnum tímamótum og eftir mikla pólitíska vinnu undanfarinna ára getum við farið að einbeita okkur að faglegum málefnum greinarinnar. Það er afar mikilvægt fyrir kúabændur að sameinast í sameiginlegum hagsmunamálum greinarinnar. Þannig stendur greinin sterkust,“ ritar Herdís Magna.