Herdís Magna fyrsta konan sem verður formaður LK

Herdís Magna Gunnarsdóttir bóndi á Egilsstöðum var kjörin formaður Landssambands kúabænda (LK) á nýliðnum aðalfundi þess. Er Herdís Magna fyrsta konan sem gegnir þessari stöðu. Hún var áður varaformaður LK og hefur setið í stjórn sambandsins í nær fjögur ár.

Aðalfundurinn átti að fara fram í mars s.l. en var frestað vegna COVID. „Þetta var fjarfundur vegna ástandsin en hann gekk mjög vel fyrir sig,“ segir Herdís Magna.

Aðspurð um áherslumál sín sem formaður LK segir hún það einkum vera þrennt. „Ég mun leggja áherslu á bætt starfsumhverfi kúabænda, breytingar á tollamálum og loftslagsmál,“ segir Herdís Magna.

Hvað bætt starfsumhverfi kúabænda varðar segir Herdís að það sé stöðugt baráttumál stjórnar sambandsins samhliða öflugri hagsmunabaráttu.

„Hvað tollamálin varðar er af nógu að taka en ég get nefnt tvennt, stórfellt svindl í innflutningi á því sem kallaðir eru jurtaostar en eru 90% mjólkurostar ásamt viðbættri jurtaolíu og samningar í tengslum Brexit,“ segir Herdís Magna. „Við þurfum að endurskoða samningana við Evrópusambandið vegna Brexit þar sem megnið af útflutningi á okkar afurðum er til Bretlands en megnið af innflutningi kemur frá öðrum Evrópulöndum.“

Loftslagsmálin eru Herdísi Mögnu hugleikin og hún vill beita sér fyrir frekari þekkingaröflun á því sviði.

Mynd: Naut.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.