Herpesveiran fannst á öðrum bæ á Héraði: Áfram rannsakað á Egilsstöðum
Nautgripur sem gefinn var frá Egilsstaðabýli á annan bæ á Héraði fyrr á árinu virðist sýktur af herpesveirunni sem fannst þar nýverið. Veiran fannst ekki annars staðar á Austurlandi. Ekki tókst að einangra veiruna í þessari umferð en yfirdýralæknir segir að rannsóknum verði haldið áfram.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Matvælastofnun sendi frá sér í gær. Tekin voru sýni á öllum kúabúum í Austurlandsumdæmi, alls 40 talsins. Öll voru neikvæð nema endurtekið sýni frá Egilsstöðum og bænum Fljótsbakka í Eiðaþinghá.
„Gripurinn sem reyndist jákvæður á Fljótsbakka var gefinn frá Egilsstaðabúinu í febrúar á þessu ári. Sýni úr mjólkurtanki á Fljótsbakka var neikvætt og það gefur von um að aðrir gripir á búinu séu ekki smitaðir en blóðsýni verða tekin af öllum gripum á Fljótsbakka til að ganga úr skugga um það,“ segir í tilkynningunni.
Fljótsbakkabúið sætir nú svipuðum aðgerðum og Egilsstaðabúið áður, banni við sölu lífdýra og auknar smitvarnir.
Frekari rannsóknir þarf á Egilsstöðum
Þá hafa einnig borist niðurstöður rannsókna á stroksýnum úr jákvæðum gripum á Egilsstöðum. Ekki tókst að eingrana veiruna úr þeim sýnum.
„Það þýðir að viðkomandi gripur er ekki að skilja út vírusa og þá væntanlega er lítil smitdreifing í gangi - sem er gott. En það er ekki þar með sagt að gripirnir séu lausir við smit,“ segir Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir. „Eðli herpesvírusa er að liggja í dvala og geta svo látið á sér kræla þegar gripurinn verður fyrir stressi.“
Bæði er leitað að veirunni til að staðfesta veru hennar á býlinu, til þessa hefur aðeins fundist mótefni í dýrunum og kanna hvaðan hún kemur. Halldór segir að þeirri vinnu verði haldið áfram.
„Við erum að leggja drög að því að leita betur - en það er of snemmt að segja frá því hvernig það verður gert“
Öll kúabú landsins skoðuð
„Á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum er verið að ganga frá sýnum frá öðrum kúabúum á landinu og senda til rannsóknar. Niðurstöður þeirra rannsókna er að vænta í næstu viku. Á Keldum er einnig verið að gera tilraun til að rækta veiruna til frekari greiningar,“ segir í tilkynningu MAST.
„Þar sem sjúkdómurinn hefur ekki greinst áður á Íslandi er unnið að rannsóknunum í nýrri öryggisrannsóknastofu Tilraunastöðvarinnar. Tilgangur allra þessara rannsókna er að varpa skýrara ljósi á málið og á grundvelli niðurstaðna þeirra verður tekin endanleg ákvörðun um aðgerðir.“