Á hertrukk frá Íslandi til Afríku: Fann ferðina á Facebook

thorgeir_oli_thorsteinsson_0007_web.jpg
Þorgeir Óli Þorsteinsson, tvítugur Egilsstaðabúi, er í fimmtán manna hópi sem keyrir á gömlum hertrukk frá Reykjavíkur til Höfðaborgar í Suður-Afríku. Áætlað er að ferðalagið taki hálft ár. Þorgeir Óli segist lítið hafa kynnt sér hvað bíður hans áður en hann fór út, hann hafi viljað fara með sem opnustum huga. Austurfrétt leit við hjá honum rétt áður en hann fór að heiman.

„Ég var bara að klára að pakka þegar þið birtust hérna hjá mér,“ segir Þorgeir. Við höfum tæpt kortér í viðtalið áður en hann þarf að leggja af stað niður á Seyðisfjörð þar sem bíllinn bíður.

Evrópa er fyrsti hluti ferðarinnar. Hluti hópsins ferjaði bílinn úr Reykjavík til Egilsstaða, þar fjölgaði aftur í hópnum sem sigldi með Norrænu til Færeyja og síðar Danmerkur. Þaðan var ekið í gegnum Frakkland og Þýskaland suður til Spánar. Á Spáni var meðal annars gist í Sevilla og farið á leik með íslenska handboltalandsliðinu á HM.

Eins sunnarlega og við komumst

Sléttur mánuður er síðan hópurinn lagði af stað. Frá Spáni var farið með ferju yfir Gíbraltarsund til Marokkó fyrir tíu dögum. Framundan er um fimm mánaða ferðalag suður álfuna eftir Vesturströndinni.

„Við þurfum að taka einhverja króka. Angóla er mjög lokað ríki sem tekur ekki við ferðamönnum. Í Malí er styrjöld þannig við komumst ekki þar í gegn.“

Endapunkturinn er í Höfðaborg í Suður-Afríku en þangað hefur hertrukkurinn verið seldur bílasafnara. „Það er eins sunnarlega og við komumst. Við vorum mjög heppinn að ná að selja bílinn í sömu borg og við endum.“

vikings_across_africa_bus_web.jpg
Ekki alveg ljóst hvenær við komum heim

Englendingur að nafni Garry Taylor leiðir hópinn en hann býr hér á landi ásamt sænskri konu sinni. Þau keyptu bílinn fyrir um tveimur árum og fóru að gera hann upp fyrir ferð sem þessa sem er sú fyrsta sem er farin frá Reykjavík til Höfðaborgar.

„Ég fór suður í haust til að skoða bílinn. Garry var ekki búinn að klára hann þá. Tveir sitja frammí en þrettán aftur í. Þetta er risabíll, það ætti að vera þægilegt að sitja í honum þótt kannski verði dálítið þröngt um manninn.“

Fimmtán eru í bílnum um helmingurinn Íslendingar. Auk Þorgeirs eru tvær stelpur að norðan, Grundfirðingur sem skiptist á við Garry á að keyra en restin af höfuðborgarsvæðinu. Til viðbótar eru Svíar, Bretar, Suður-Afríkubúar, Bandaríkjamenn og Ítalir um borð. Tólf voru í bílnum þegar hann fór frá Seyðisfirði en þrír bættust við í Malaga á Spáni og eru aðeins með í Afríkuferðinni. Þau eru á aldrinum 20-42ja ára.

En þótt ferðaáætlunin sé hálft ár er óljóst hvenær heimkoman verður. „Við getum ekki skipulagt okkur langt fram í tímann. Það gæti brotist út styrjöld á svæðinu sem við þyrftum að sveigja fram hjá eða bíllinn bilað og tafið okkur um viku.“

Strax heillaður af ferðinni

Þorgeir Óli frétt af ferðinni í sumar. „Ég sá auglýsingu á Facebook með yfirskriftinni „Vikings Across Africa“. Ég varð heillaður strax af nafninu en hugsaði samt „nei... ég er ekki að fara neitt svona.“ Svo ákvað ég að slá til.“

Þorgeir Óli, sem útskrifaðist frá Menntaskólanum á Egilsstöðum sem stúdent síðasta vor, segist hafa stefnt á að ferðast eftir útskriftina. Eftir ár í vinnu hjá Alcoa Fjarðaáli hafði hann safnað sér fyrir ferðinni.

„Ég held að ferðin kosti alls um 800 hundruð þúsund krónur. Þetta er samt miklu ódýrara en að fara í heimsreisu og flýgur á milli landa eins og fólk gerir oftast. Við borgum bara fyrir bensínið, sem er reyndar ekki ódýrt og svo bara flugið heim.“

Ég er bara mjög spenntur fyrir að koma til Afríku.

Við göngum á Þorgeir Óla með spurningar um hvað hafi valdið því að hann ákvað að fara með í ferðina. „Ég fæ þessa spurningu oft á dag en veit ekki alveg svarið,“ svarar hann.

Hann segist hafa viljað fara út með sem opnustum hug. Því hafi hann sem minnst undirbúið sig. „Maður hefur fengið sér þessa nauðsynlegustu hluti: sprautur, vegabréfsáritanir og þess háttar. Reyndar eru nokkrar áritanir eftir. Í Afríku sækir maður oftast um áritun í landinu sem maður er í fyrir það næsta.

Ég ákvað bara að demba mér út. Láta ekkert hafa áhrif á mig áður en ég kæmi út. Ég á von á mikilli skemmtun og miklu erfiði. Við ætlum að skoða Afríku. Þetta er allt önnur menning og gríðarlegur hiti. 

Ég hef ekki hugsað um neitt sérstakt sem mig langar að skoða. Ég er bara mjög spenntur fyrir að koma til Afríku. Þetta verður mjög góð reynsla. Ég á ekki eftir að sjá eftir þessu.“ 
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.