Hitamet um helgina?
Ekki er útilokað að sett verði hitamet fyrir marsmánuð um helgina en spáð er hlýju veðri á landinu öllu. Sumarblíða virðist ætla að ríkja á Austurlandi fram á mánudag.
Veðurstofan spáir suðlægum áttum og 8-14 stiga hita á Austurlandi um helgina. Á mánudag er spáð allt að 16 hita á Norðausturlandi en búast má við kólnandi veðri þaðan í frá.
Mesti hiti sem mælst hefur í marsmánuði á Íslandi var 27. mars 1949 á Sandi í Aðaldal en þar mældust 18,3° hiti. Þá voru mikil hlýindi, einkum á Austurlandi, í lok mars árið 2000.
Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson segist reyndar á bloggsíðu sinni efins um að hitametinu verði velt úr sessi um helgina. Það sé þó aldrei að vita.