Hitasveifla upp á 23 gráður á nokkrum austfirskum veðurstöðvum

Þrjár veðurstöðvar á Austurlandi státa af hitasveiflu upp á 23 gráður á innan við sólarhring. Hlýindum í dag fylgir talsverð úrkoma í byggð.

Stærsta stökkið á austfirskri veðurstöð er á mæli á Brú á Jökuldal, frá -15 gráðum niður í -4,8 milli klukkan 21 og 22 í gærkvöldi. Samkvæmt gögnum á vef Veðurstofunnar voru -22 gráður þar í nær allan gærdag en klukkan sjö í morgun var hitinn kominn upp fyrir frostmark.

Á Egilsstaðaflugvelli er hitabreytingin svipuð innan sólarhringsins. Klukkan 13 í gær var frostið -18,5 gráður. Það hélt þar til á fjórða tímanum þegar frostið minnkaði um fjórar gráður. Annað stökk var úr -10 niður í -7 milli klukkan 19 og 20 í gærkvöldi.

Eftir það voru umskiptin hægari en klukkan 23 var frostið komið niður í -1,6°C og í 0,4°C klukkan tvö. Klukkan níu í morgun mældist hitinn 4,9 gráður.

Í Möðrudal á Fjöllum var frostið -23,6 gráður klukkan 10 í gærmorgun en var orðið -0,4°C klukkan níu í morgun.

Frostið var meira en 10 gráður um nær alla Austfirði í gær. Það varð þó ekki jafn kalt og á þessum fyrrnefndu stöðum og því eru sveiflurnar ekki jafn miklar. Þar er sveiflan mest á Fáskrúðsfiðri, úr -16,5 gráðum kl 15 í gær upp í 3,2 gráður klukkan níu í morgun.

Skýringin er að vindur snérist í gær til suðausturs. Þessu hlýja lofti fylgir líka talsverð rigning. Síðdegis í dag styttir upp og þá frystir aftur, þó ekki af sömu hörku og áður.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar