Hitinn víða kominn vel yfir 20 stig

Sérdeilis hlýtt er á Austurlandi þennan morguninn þar sem hitinn er á fleiri en einni veðurstöð kominn í yfir 20 gráður.

Klukkan átta í morgun mældist hæsti hiti landsins á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, 24,8 gráður. Á Seyðisfirði var hann kominn í 22,9 gráður og á Borgarfirði eystra og upp í Vatnsskarði í 20 gráður.

Samkvæmt kortum Veðurstofu Íslands var hitinn kominn nærri 20 gráðum á stöðum eins og Egilsstöðum, Fáskrúðsfirði, Neskaupstað og Hallormsstað.

Ástæðan fyrir þessum hausthlýindum er hvöss sunnan eða suðvestanátt sem fer mildari höndum um Austfirðinga en aðra landsmenn þar sem gefnar hafa verið út viðvaranir vegna hvassviðris. Þó gustar einnig um Austfirðinga.

Hlýr loftmassi er nú yfir svæðinu og áfram eru líkur á hlýindum á Austurlandi. Hitinn gæti vel farið í um 20 stig á föstudag og laugardag og einnig virðist vera ágætis veður á sunnudag. Frá og með mánudegi haustar hins vegar snarlega.

Mynd: Jón Sigurðsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar