Hlaðvarp um loðnuvertíðina

Vefurinn Loðnufréttir, sem fylgir eftir loðnuvertíðinni, hefur nú bætt hlaðvarpsþáttum við þjónustuna. Veiðar eru aftur að komast á siglingu eftir brælu í síðustu viku.

Þrír þættir eru komnir í loftið þar sem farið hefur verið yfir vertíðina frá í fyrra, markaðssetningu loðnuafurða og hvers sé að vænta fyrri komandi vertíð. Þá var í fyrsta þætti viðtal við Geir Zoegea, skipstjóra á Polar Amaroq sem er í eigu Síldarvinnslunnar.

Ritstjóri Loðnufrétta er Austfirðingurinn Ingvi Þór Georgsson. „Í ljósi þess að vertíðin í ár verður mun skemmri en í fyrra sökum úthlutunar var ákveðið að bregða á það ráð að „hita aðeins upp“ í staðinn og búa til 5-6 þætti fyrir þau allra hörðustu en hugmyndin er að sjálfsögðu líka að reyna að fá fleiri til að fylgjast með," segir Ingvi sem einnig ritstýrir fjármálahlaðvarpinu Pyngjunni.

Mikil bræla setti svip sinn á veiðarnar í síðustu viku. Í fyrradag lönduðu þrjú norsk skip samtals um 1000 tonnum á Fáskrúðsfirði. Börkur kom með stærsta farm síðustu viku, tæp 1600 tonn til Norðfjarðar á föstudag.

Íslensku skipin eru úti fyrir Kvískerjum en svo sunnarlega mega norsku skipin ekki fara. Þau eru mörg hver inni á fjörðum en þrjú þeirra stefna þennan morguninn í humátt hvert á eftir öðru út Seyðisfjörð.

Ingvi Þór Georgsson, ritstjóri Loðnufrétta. Mynd: Aðsend


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar