Hálslón er öryggissvæði heiðagæsa
Gæsavarp á vatnasvæði Kárahnjúkavirkjunar hefur aukist undanfarin ár. Lónið og girðingar í kring nýtast gæsinni sem öryggissvæði. Varpi hefur á móti seinkað þar sem það svæði sem áður kom fyrst undan snjó er nú undir vatni.
Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Náttúrustofu Austurlands sem unnin var fyrir Landsvirkjun. Þar er rakin varpþróunin áranna 2005-2010 og hún meðal annars borin saman við gögn frá 2000 þegar unnið var umhverfismat fyrir virkjunina. Rannsóknin nær langt út fyrir Hálslón því hún tekur til vatna- og áhrifasvæðis virkjunarinnar. Talið var við þverár og niður í byggð í Fljótsdal og Jökuldal.
Í ljós kom að heiðagæsavarpið hefur aukist um rúman helming frá árinu 2000 á vöktuðum hluta vatnasviðs Kárahnjúkavirkjunar. Mest hefur aukningin verið í Hnefilsdal. Heiðagæsavarp hefur reyndar almennt aukist á Austurlandi og benda skýrsluhöfundar á að aðstæður séu það góðar fyrir fuglana að það gæti aukist enn frekar.
Gæsunum hefur á móti fækkað á Eyjabökkum. Ekki er ljóst hver ástæðan er en því er velt upp í skýrslunni að svæði hafi verið orðið of þétt setið fyrir nokkrum árum og hluti fuglanna þar flutt sig annað.
Árið 2007 breyttist aðstaða gæsanna á svæðinu við Kárahnjúka töluvert þegar Hálslón var fyllt í fyrsta sinn. Áhrifin eru þríþætt. Gæsirnar nota það sem öryggissvæði. „Þær fljúga út á það verði þær fyrir styggð og hlaupa með ungana út á það yfir sumarið, fella fjaðrir á því og nota sem náttstað á haustin.“
Í öðru lagi hefur varpið færst ofar og breiðst út um stærra svæði. Varpið hefur einnig þést en það gæti stafað af fleiri þáttum. Í þriðja lagi virðist varptíma hafa seinkað þar sem snjóa leysir seinna á nýju svæðunum heldur en á bökkum Jöklu þar sem gæsirnar verptu áður.
Þá virðist gæsin nýta sér sauðfjárvarnargirðingar með fram farvegi Jökulsár á Dal sem skjól. Gæsirnar sækja í að verpa sem næst henni. „Það má túlka þannig að hún finni vörn gegn ræningjum við girðinguna.“