Hnúðlax veiddist í Selfljóti

Hnúðlax veiddist í Selfljóti á Fljótsdalshéraði í gær. Veiðimenn um allt land hafa hvatt til að deila upplýsingum um veidda hnúðlaxa en áhyggjur eru af því að þeir geti numið hér land.


Í tilkynningu sem veiðifélag Selfljóts sendi frá sér á Facebook-síðu sinni í morgun veiddist laxinn á svæði 3, Bjarglandsá en hún fellur í Selfljótið yst á Héraðssandi.

Hnúðlaxinn reyndist hængur, 48 sm langur og 1,2 kg. Þeim tilmælum er beint til veiðimanna að tilkynna það sem fyrst til veiðifélagsins verði þeir varir við hnúðlax þar en þetta mun vera í fyrsta sinn sem slíkur fiskur kemur á land úr ánni.

Aldrei hafa fleiri hnúðlaxar veiðst hérlendis en í ár. Í Noregi hefur verið fylgst náið með hnúðlaxinum þar sem óttast að hann skaði vistkerfið í veiðiám þar en hann er talin framandi tegund. Hafrannsóknastofnun hefur beðið veiðimenn á Íslandi að deila fregnum af laxinum.

Samkvæmt samantekt Fiskifrétta frá í síðasta mánuði var einn hnúðlax kominn á land á Austurlandi og veiddist sá í Selá í Vopnafirði.

Í frétt blaðsins segir að hnúðlaxar hafi veiðst og til hérlendis frá árinu 1960. Laxinn er flækingur og eru náttúruleg heimkynni hans í norðanverðu Kyrrahafi. Þar er hann aðallega veiddur í sjó en þykir lítt hæfur til manneldis eftir að kynþroska er náð og er því illa séður af veiðimönnum í ferskvatni. Hnúðlaxinn sem kemur hingað er talinn eiga uppruna sinn í rússneskum tilraunum.

Auk hnúðlaxins veiddust sjö bleikjur og einn Atlantshafslax á eina stöng á svæði þrjú í Selfljóti í gær.

Mynd: Veiðifélag Selfljóts

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.