Höfnuðu kæru Flugfélags Austurlands um afturköllun útboðs
Kærunefnd útboðsmála hefur hafnað kæru frá Flugfélagi Austurlands vegna útboðs á þremur flugleiðum. Félagið átti langlægsta tilboðið í leiðirnar.Vegagerðin bauð í vor út flug frá Reykjavík til Gjögur, Bíldudals og Hafnar í Hornafirði til þriggja ára frá 1. nóvember. Þrjú tilboð bárust frá Flugfélagi Austurlands, Flugfélaginu Erni og Norlandair. Hægt var að bjóða í flugleiðirnar allar saman, eða leiðirnar vestur annars vegar og til Hafnar hins vegar.
Flugfélag Austurlands átti langlægstu tilboðin. Það bauð 391 milljón í flugin vestur og 370 til Hafnar. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 726 milljónir fyrir flugin vestur og 499 til Hafnar. Ernir bauð 530 milljónir í Hornafjarðarflugið og Norlandair 612 í Vestfjarðaflugið.
Samanlagt hljóðaði kostnaðaráætlunin upp á 1255 og komst Norlandair næst því með tilboð upp á 1288 milljónir. Ernir bauð 1327 en Flugfélag Austurland 761.
Vegagerðin hafnaði tilboðum Flugfélags Austurlands á þeim forsendum að félagið uppfyllti ekki skilyrði útboðsins. Í fyrsta lagi kröfu um að minnsta kosti tveggja ára marktæka reynslu við vetraraðstæður á norðlægum slóðum, í öðru lagi hefði það ekki vélar í flugið og í þriðja lagi hefði það ekki lagt fram fullnægjandi gögn um fjárhagstöðu sína. Þessu er öllu mótmælt af hálfu félagsins í kærunni.
Vegagerðin ákvað að taka tilboði Norlandair en endurskoðaði ákvörðun sína eftir að kæra barst frá Erni á þeim forsendu að vélar Norlandair uppfylltu ekki kröfur útboðsins. Vegagerðin sendi bjóðendum erindi þar sem fram kom að mistök hefðu verið gerð við mat á útboðinu.
Óskað var eftir frekari gögnum frá Norlandair um vélar og frá Erni um fjárhagsstöðu þess. Flugfélagi Austurlands var boðið að framlengja gildistíma síns tilboðs en hafnaði því.
Flugfélag Austurlands fór fram á að höfnun tilboðsins yrði afturkölluð og samningaviðræðum hætt, eða tilboðsferlið hafið að nýju. Úrskurðarnefndin féllst ekki á það. Vegagerðin hefði gert grein fyrir mistökum við útboðið og kallað eftir nánari gögnum. Sú ákvörðun væri ekki tilefni kærunnar og því væru lagaforsendur fyrir stöðvun útboðsins ekki uppfylltar.
Á svipuðum forsendum hafnaði úrskurðarnefndin einnig kæru Ernis um að samningaviðræður við Norlandair yrðu stöðvaðar.