Hoffellið siglir sjálft til Eskifjarðar

Hoffell, flutningaskip Samskipa sem varð vélarvana skammt utan Reyðarfjarðar fyrr í kvöld, kom til hafnar á Eskifirði skömmu fyrir klukkan hálf tólf í kvöld. Þangað sigldi skipið fyrir eigin vélarafli og gekk siglingin að óskum.


Skipið lét úr Mjóeyrarhöfn og hélt áleiðis til Rotterdam rétt fyrir klukkan fimm í dag. Það var því aðeins komið út í mynni Reyðarfjarðar þegar það missti afl á aðalvél um klukkan sex. Um klukkan hálf níu tókst að koma vélum skipsins í gang og mallaði það síðan inn til Eskifjarðar. Upphaflega var gert ráð fyrir að siglingin tæki um fjóra tíma en sem fyrr segir var skipið komið í höfn fyrir miðnætti.

Björgunarskipið Hafdís frá Fáskrúðsfirði og dráttarbáturinn Vöttur fylgdu skipinu til hafnar. Skip Eskju, Jón Kjartansson, var kallað til aðstoðar sem og þyrla landhelgisgæslunnar. Þyrlan fór aldrei lengra en á Höfn þar sem hún beið eftir að ljóst var að Hoffell væri komið af stað. Jón Kjartansson fór út að Hoffelli en sigldi til hafnar þegar vélarnar voru komnar í gang. Á sama tíma var öðrum björgunarskipum snúið til síns heima.

Um borð er 13 manna áhöfn og að því er fram kemur í tilkynningu frá Samskipum amar ekkert að henni. Nokkrar áhyggjur hafa verið af veðri á svæðinu en spáð er hvassviðri. Um borð í skipinu er töluvert magn af varningi. Strax verður byrjað að gera við skipið en ekki er ljóst hve langan tíma það tekur.


Mynd úr safni Samskipa

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.