Hoffellið til makrílveiða í kvöld
Venus NS frá Vopnafirði, skip HB Granda, var fyrst austfirsku skipanna til að halda á makrílmiðin austur af Vestmannaeyjum. Skipið fór út seinni part sunnudags.
Að sögn Ægis Páls Friðbertssonar, framkvæmdastjóra HB Granda, hefur veiðin verið róleg. Reiknað er með að hefja makrílvinnslu á Vopnafirði á fimmtudag ef veiðin gengur eftir hjá Venusi.
Næst í röðinni er svo Hoffell, skip Loðnuvinnslunnar, sem fer út í kvöld. Hoffellið var á kolmunna í byrjun mánaðarins og landaði síðasta föstudag 750 tonnum.
Börkur og Beitir, skip Síldarvinnslunnar, hafa einnig verið að þreifa fyrir sér í kolmunna. Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu, segir veiðina hafa verið mjög trega. Beitir kom inn í nótt og Börkur er nýkominn til lands. Áframhald kolmunnaveiðanna verður ákveðið á næstu dögum. „Við vorum bara að skoða stöðuna. Yfirleitt er best að veiða kolmunnann í desember, efnainnihaldið er best þá,“ segir Jón Már.
Hjá Síldarvinnslunni er áformað að vinnsla á makríl hefjist 20. júlí. Það verður í fyrra fallinu en vinnslan hefur yfirleitt hafist í lok mánaðarins. Jón Már segir bjartsýni ríkja fyrir makrílvertíðinni því verðið sé ágætt á mörkuðum en verra útlit sé fyrir sölu á síld sem stundum veiðist með, þótt aðalvertíð hennar sé ekki fyrr en í lok ágúst og september.
Hjá Eskju er stefnt að því að Aðalsteinn Jónsson láti úr höfn á fimmtudagsmorgun. Skipið var í slipp í Færeyjum nær allan júnímánuð og kom heim nú í byrjun júlí. Reiknað er með að skipið landi á Eskifirði á mánudagsmorgunn. Von er á því að Jón Kjartansson eða Guðrún Þorkelsdóttir fari til veiða um helgina.